Íslenski boltinn

Lee Sharpe var of stór fyrir Grindavík og datt í það á Sjómannahelginni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lee Sharpe vann nokkra titla með Manchester United og lék með enska landsliðinu áður en ferill hans fjaraði út.
Lee Sharpe vann nokkra titla með Manchester United og lék með enska landsliðinu áður en ferill hans fjaraði út. stöð 2 sport/getty/john peters

Jónas Þórhallsson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, viðurkennir að Lee Sharpe hafi verið of stór biti fyrir félagið.

Mikla athygli vakti þegar þessi fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins samdi við Grindavík 2003. Sharpe stoppaði stutt við í Grindavík og lék aðeins fimm leiki í deild og bikar með liðinu.

„Enn og aftur var ég efins um þetta. Auðvitað er frábært að fá svona nafn en ég sagði strax að við myndum ekki höndla það, hvorki leikmenn, stjórnarmenn né þjálfarar. Þetta væri bara það stórt nafn og svo kostaði þetta þvílíka fjármuni,“ sagði Jónas í fimmta þætti Foringjanna þar sem farið var yfir feril hans.

„Það voru tveir bræður sem eru miklir stuðningsmenn og ævintýramenn, yndislegir drengir, sem stóðu að baki þessu. Þeir komu þrisvar og bönkuðu og sögðu að allt væri klárt, að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að safna peningunum. Á endanum var þetta samþykkt og það fór eins og það fór. Hann stoppaði bara í tvo til þrjá mánuði.“

Klippa: Foringjarnir - Jónas Þórhallsson um Lee Sharpe

Sharpe hafði það orð á sér að vera skemmtanaglaður og kunna að lifa ljúfa lífinu.

„Ég var búinn að heyra af því. Ég kynnti mér bakgrunninn hans og hafði samband við mann sem bjó í Manchester og hann sagði að það væri svolítið líferni á honum,“ sagði Jónas sem minntist þess að Sharpe hafi skrallað á Sjómannadaginn.

„Það var eitt atvik á Sjómannahelginni þegar þeir duttu í það, eitthvað smá partí. Það varð frétt um allt. En þetta var of stórt fyrir okkur. Við vorum ekki tilbúnir í þetta á þessum tíma.“

Sharpe varð þrisvar sinnum Englandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með United og þá vann hann Evrópukeppni bikarhafa með liðinu 1991. Hann var valinn besti ungi leikmaður efstu deildar á Englandi tímabilið 1990-91.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×