Fótbolti

Guðmundur Þórarinsson og félagar MLS-meistarar eftir vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðmundur Þórarinsson og félagar hans í New York City FC tryggðu sér MLS-titilinn í kvöld.
Guðmundur Þórarinsson og félagar hans í New York City FC tryggðu sér MLS-titilinn í kvöld. Ira L. Black - Corbis/Getty Images

Guðmundur Þórarinsson og félagar hans í New York City FC urðu MLS-meistarar í fótbolta er liðið lagði Portland Timbers 4-2 í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var jöfn eftir framlengingu, 1-1, í úrslitaleik bandarísku MLS-deildarinnar í fótbolta.

Guðmundur var í byrjunarliði New York, en það var Valentin Castellanos sem skoraði fyrsta mark leiksins á 41. mínútu þegar hann skallaði aukaspyrnu Maxi Moralez í netið og staðan var því 1-0 í hálfleik.

Liðsmenn Portland færðu sig framar á völlinn og reyndu hvað þeir gátu til þess að jafna metin í seinni hálfleik.

Guðmundur Þórarinsson var tekin af velli í uppbótartíma, en Felipe Mora jafnaði metin með seinustu spyrnu leiksins eftir mikinn darraðardans í teginum. Niðurstaðan að venjulegum leiktíma loknum 1-1 jafntefli og því var komið að framlengingu.

Hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Valentin Castellanos var fyrstur á punktinn og kom New York yfir. Sean Johnson gerði sér svo lítið fyrir og varði fyrstu spyrnu Portland og New York hafði því forystuna.

Hún lifði þó ekki lengi því Steve Clark varði aðra spyrnu Portland, áður en Sean Johnson varði á ný.

Bæði lið skoruðu svo úr næstu tveimur spyrnum og varnarmaðurinn Alexander Callens gat því tryggt New York sigurinn með fimmtu spyrnu liðsins. Callens skoraði af miklu öryggi og fyrsti MLS-titill New York City FC því staðreynd.

MLS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×