Fótbolti

Spilar ekki meira á árinu eftir að hafa greinst óbólusettur með kórónuveiruna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Joshua Kimmich spilar ekki meira með Bayern á þessu ári.
Joshua Kimmich spilar ekki meira með Bayern á þessu ári. Roland Krivec/DeFodi Images via Getty Images

Joshua Kimmich, leikmaður Þýskalandsmeistara Bayern München og þýska landsliðsins í fótbolta, spilar ekki meira á þessu ári eftir að hafa greinst með kórónuveiruna í síðasta mánuði. Í október viðurkenndi Kimmich að hann sé ekki bólusettur.

Kimmich greindist undir lok nóvember, en hann losnaði úr einangrun í gær. Veiran hefur valdið því að leikmaðurinn fékk talsverða sýkingu í lungun.

„Ég er nokkuð góður núna en má ekki reyna á líkaman til fulls núna vegna smávægilegra vandræða í lungunum,“ sagði Kimmich í Instagram-færslu.

„Ég get ekki beðið eftir því að byrja aftur og vera með liðinu. Ég þarf hins vegar að vera þolinmóður í nokkra daga í viðbót. Ég horfi á seinustu þrjá leiki ársins í sófanum og svo ráðumst við saman á þetta í janúar.“

Kimmich hefur nú þegar misst af fimm leikjum með Bayern vegna veikindanna, þar á meðal gegn Dinamo Kiev og Barcelona í Meistaradeild Evórpu, og toppslagnum gegn Borussia Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×