Umfjöllun og viðtöl: Fram - Haukar 32-33 | Vængbrotnir Haukar á toppinn

Sindri Sverrisson skrifar
Darri Aronsson hafði í nógu að snúast í kvöld.
Darri Aronsson hafði í nógu að snúast í kvöld. vísir/Elín Björg

Fram lék þriðja háspennuleik sinn í röð þegar liðið tók á móti Haukum sem unnu eins marks sigur, 33-32, og komu sér aftur í toppsæti Olís-deildar karla í handbolta.

Sigur Hauka er afar sterkur í ljósi þess hve marga lykilmenn vantaði. Í hópinn í kvöld vantaði alla vega Aron Rafn Eðvarðsson, Adam Hauk Baumruk, Tjörva Þorgeirsson, Stefán Rafn Sigurmannsson og svo Geir Guðmundsson sem fékk höfuðhögg í Evrópuleiknum um helgina.

Ekki bætti svo úr skák að Ólafur Ægir Ólafsson var borinn af velli vegna meiðsla þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum í kvöld. Óvíst er með líðan hans.

Engu að síður náðu Haukar að kreista út tvö stig og koma sér á ný upp fyrir FH eftir tapið í Hafnarfjarðarslagnum, með 18 stig eftir 12 leiki. Fram er hins vegar án sigurs í síðustu sex leikjum, í 8. sæti deildarinnar með 10 stig eftir 11 leiki.

Fram með 42 ára gamlan markvörð sem hjálpaði til

Haukar höfðu yfirhöndina stærstan hluta leiksins og áttu sinn besta kafla í fyrri hálfleik þegar þeir skelltu vörninni í lás, og bjuggu sér til sex marka forystu, 16-10, þegar sjö mínútur voru til hálfleiks.

Hvort sem það var vegna reiðilesturs Einars Jónssonar í leikhléi Fram um þetta leyti, eða af öðrum ástæðum, þá kviknaði betur á heimamönnum þegar leið á leikinn og þeir náðu að stórlaga stöðuna fyrir hlé, 18-16.

Hinn 42 ára gamli Magnús Gunnar Erlendsson hafði þá komið inn á í mark Fram og átt nokkrar prýðisgóðar markvörslur, í sínum öðrum leik eftir sex ára hlé, og sóknarmenn Fram sýndu meiri áræðni.

Framarar reyndu svo ítrekað að jafna metin í seinni hálfleik en alltaf virtust Haukar eiga svör þegar munurinn var að hverfa. Þeir voru duglegir við að keyra í bakið á heimamönnum í hvert sinn sem þeir fengu á sig mark og náðu í mörg „ódýr“ mörk með þeim hætti.

Framarar gáfust hins vegar ekki upp og heldur virtist draga af Haukum þegar leið á seinni hálfleik, enda hópurinn mun þynnri en vanalega og liðið búið að vera í strembinni törn vegna Evrópuleikja.

Bæði lið ósátt þegar Vilhelm fékk brottvísun

Eftir tvö mörk í röð úr hraðaupphlaupum, og alls fjögur mörk í röð frá Fram, náði liðið að jafna metin í 24-24 þegar 15 mínútur voru enn eftir.

Þá gerðist umdeilt atvik þegar Vilhelm Poulsen tók í treyju Atla Más Bárusonar sem virtist ýkja togið duglega þegar hann féll harkalega til jarðar. Ungir dómarar leiksins gáfu Vilhelm tveggja mínútna brottvísun sem bæði lið voru raunar ósátt með.

Brynjólfur dró vagninn síðasta spölinn

Haukar komust aftur yfir en Fram fékk þó frábær færi til að jafna metin að nýju, án árangurs. Stefán Huldar Stefánsson, sem hafði frekar hægt um sig í marki Hauka, varði til að mynda tvö skot í röð þegar Fram gat jafnað metin í 29-29.

Á lokakaflanum var það Brynjólfur Snær Brynjólfsson sem öðrum fremur tryggði Haukum sigurinn með frábærri frammistöðu í hægri skyttustöðunni, eftir að Ólafur Ægir hafði verið borinn af velli. Hann sá til þess að Fram næði ekki að jafna metin heldur aðeins minnka muninn í eitt mark þegar um 15 sekúndur voru eftir.

Af hverju unnu Haukar?

Frábær kafli um miðjan fyrri hálfleik gerði Haukum verkið auðveldara. Liðið sýndi hve breiður hópur góðra leikmanna er til staðar og þrátt fyrir mikil forföll gátu margir lagt hönd á plóg við að skila sigrinum heim. Ekkert fát kom á liðið þrátt fyrir sífelldar tilraunir Framara til að ná að jafna eða komast yfir.

Hverjir stóðu upp úr?

Haukar nýttu línumenn sína vel og voru um tíma með bæði Heimi Óla Heimisson og Þráinn Orra Jónsson inn á. Þeir skiluðu alls níu mörkum, mörgum hverjum með næsta auðveldum hætti. Brynjólfur Snær var svo frábær á lokakaflanum og nýtti skotin sín nánast óaðfinnanlega, en hann endaði með 10 mörk, þar af 5 úr vítum.

Breki Dagsson, Stefán Darri og Vilhelm Poulsen áttu allir ágætan dag í sóknarleik Fram en Þorsteinn Gauti Hjálmsson hefði mátt sýna sama einbeitta sigurvilja allan leikinn og hann gerði undir lokin.

Hvað gekk illa?

Varnarleikurinn var ekki upp á marga fiska heilt yfir í kvöld, þó að Haukar hafi náð að berja saman vörnina á góðum kafla í fyrri hálfleik sem að lokum skilaði þeim sigrinum. Markverðir liðanna áttu engan glansleik en léku ekki heldur mjög illa.

Hvað gerist næst?

Fram tekur á móti ÍBV á mánudaginn í Coca Cola-bikarnum en Haukar sitja hjá. Næsti leikur Hauka er því gegn Aftureldingu á Ásvöllum 17. desember, og það er jafnframt síðasti leikur fyrir jóla- og EM-frí. Fram sækir Selfoss heim 16. desember í síðasta leik sínum fyrir fríið.

Aron: „Náðum að stoppa blæðinguna í bæði skiptin“

„Ég er auðvitað mjög ánægður með sigurinn. Strákarnir sýndu mikinn karakter og við spiluðum þennan leik mjög vel,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.

„Varnarleikurinn var nokkuð þéttur, við náðum sex marka forystu eftir frábæran kafla í fyrri hálfleik, en þá kom kafli, rétt eins og í seinni hálfleik, þar sem við gerðum okkur seka um nokkra tæknifeila í röð og þeir náðu að hala inn á okkur. Við náðum að stoppa blæðinguna í bæði skiptin, spiluðum klókt og menn sýndu mikla fórnfýsi,“ sagði Aron.

Aðspurður um öll forföllin í liði Hauka, og meiðsli Ólafs Ægis í kvöld, svaraði Aron:

„Þetta er auðvitað ekki gott. Við erum með tvo leikmenn úti vegna höfuðhögga. Stefán [Rafn Sigurmannsson] er búinn að vera svolítið frá eftir fyrstu umferðina í Evrópukeppninni. Sú keppni hefur tekið svolítinn toll en hún er skemmtileg. Nú eigum við einn leik eftir fram að áramótum, ætlum okkur tvö stig þar og svo þurfum við ná vopnum okkar í hléinu.“

Aron kvaðst hins vegar ekkert geta sagt um stöðuna á Ólafi Ægi eða hvers eðlis meiðsli hans væru.

Þjálfarinn tók undir það að Brynjólfur Snær hefði verið mikilvægur á lokakafla leiksins:

„Hann var frábær. Í fyrri hálfleik var Atli líka hægra megin og við spiluðum með tvo línumenn, sem mér fannst ganga mjög vel. Brynjólfur kom svo með mjög sterka innkomu í seinni hálfleik, þegar við vorum með „nærskiptingu“ og gátum skipt honum út af. Menn voru alveg að gera mistök en mér fannst allir alltaf halda áfram og koma með mikilvægt innlegg í vörn og sókn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira