Sport

Bauð ríkisstjórnina velkomna á heimaleik Íslands á Ítalíu

Sindri Sverrisson skrifar
Henry Birgir Gunnarsson, Hannes S. Jónsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og Ásmundur Einar Daðason við Pallborðið í gær.
Henry Birgir Gunnarsson, Hannes S. Jónsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og Ásmundur Einar Daðason við Pallborðið í gær. Vísir/Vilhelm

Íþróttahreyfingin hefur lengi kallað eftir nýjum þjóðarleikvöngum og í vetur er svo komið að íslenska karlalandsliðið í körfubolta neyðist til að spila leiki á útivelli sem fara áttu fram á Íslandi. Formaður KKÍ bauð ríkisstjórninni á „heimaleik“ á Ítalíu í febrúar, í Pallborðinu í gær.

Ísland hefur um árabil verið á undanþágu hjá alþjóðasamböndum til að spila í Laugardalshöll í undankeppnum stórmóta í körfubolta og handbolta. 

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir að þolinmæði FIBA sé á þrotum og þegar að ekki var hægt að spila í Laugardalshöll vegna vatnsskemmda voru skilaboðin einföld: Engin höll á Íslandi uppfyllir kröfur FIBA.

„Mönnum finnst þetta bara skrýtið, að við getum ekki gert þetta. Það er það sem FIBA segir. Það er ekki til neitt hús eins og staðan er akkúrat í dag,“ sagði Hannes í Pallborðinu í gær, þar sem íþróttamálaráðherrann Ásmundur Einar Daðason og Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, voru einnig.

Klippa: Pallborðið - Hannes bauð ráðherra til Ítalíu

Ekki er ljóst hvenær hægt verður að keppa í íþróttum að nýju í Laugardalshöll en það verður tæplega fyrr en næsta vor eða sumar.

Karlalandsliðið í körfubolta varð að skipta við Rússa á heimaleik, og spila í Pétursborg í síðasta mánuði í stað þess að spila á Íslandi. Vonir standa til þess að hægt verði að mæta Rússum í Laugardalshöll næsta sumar.

Í febrúar eru hins vegar tveir leikir á dagskrá gegn Ítalíu sem allt útlit er fyrir að þurfi báðir að fara fram á Ítalíu.

„Auðvitað erum við öll að vinna í því að eitthvað geti gerst, en því miður stefnir í það að við séum að fara að spila tvo leiki á útivelli við Ítalíu í lok febrúar, þegar við ættum að eiga heimaleik og útileik við Ítalíu. Það verður bara gaman að fá ráðherra og ríkisstjórn og fleiri til að mæta á heimaleikinn okkar á Ítalíu,“ segir Hannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×