Erlent

Danski heil­brigðis­ráð­herrann með Covid-19

Atli Ísleifsson skrifar
Magnus Heunicke er nú í einangrun á hóteli í Brussel.
Magnus Heunicke er nú í einangrun á hóteli í Brussel. EPA

Danski heilbrigðisráðherrann Magnus Heunicke greindist með Covid-19 í dag. Hann dvelur nú í belgísku höfuðborginni Brussel þar sem hann er í einangrun á hóteli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá danska heilbrigðisráðuneytinu. Magnus Heunicke kom til Brussel í gærkvöldi til að sækja fund í ráðherraráði Evrópusambandsins.

Hann er sagður hafa fengið jákvæða niðurstöðu úr sjálfsprófi í morgun og fékk svo gruninn staðfestan með jákvæðu PCR-prófi.

Ráðherrann er með væg einkenni kórónuveirunnar sem birtist í hálssærindum.

Kórónuveirusmit ráðherrans hefur leitt til þess að allir þeir sem hafa verið í návist ráðherrans síðustu daga munu gangast undir sýnatöku, allt í samræmi við danskar og belgískar sóttvarnareglur.

Í frétt danska ríkisútvarpsins kemur fram að Heunicke hafi ferðast bæði með neðanjarðarlest og S-lest í Kaupmannahöfn á föstudaginn, en ekki er hægt að rekja með vissu hvar ráðherrann smitaðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×