Handbolti

Grét eftir að hún fékk verðlaunin í leikslok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta var stór stund fyrir Fatemeh Khalili.
Þetta var stór stund fyrir Fatemeh Khalili. Twitter

Íranska kvennalandsliðið í handbolta er á sínu fyrsta stórmóti og það gengur ekkert sérstaklega vel hjá nýliðunum. Liðið er samt búið að fá sín fyrstu verðlaun.

Íran tapaði 39-11 á móti Rúmeníu í fyrsta leik og tapaði síðan 41-9 á móti Norðmönnum í gær.

Það var engu að síður dramatísk stund í leikslok þegar markvörðurinn Fatemeh Khalili var valin besti leikmaðurinn.

Fatemeh Khalili átti einnig mjög góðan leik á móti Rúmeníu þegar hún varði 18 skot.

Að þessu sinni varði hún sjö skot í fyrri hálfleiknum þar af þrjú hraðaupphlaup og tvö af línu.

Íranska liðið komst reyndar í 2-1 í leiknum en norska liðið endaði fyrri hálfleikinn á 21-1 spretti.

Khalili grét þegar það var tilkynnt að hún hefði verið valin maður leiksins.

Allir samherjarnir hópuðust líka í kringum hana og úr varð gleðistund fyrir lið sem hafði tapað með 32 marka mun.

Norsku stelpurnar gátu svo sannarlega glaðst með Khalili sem var þarna að skrifa sögu þjóðar sinnar á handboltavellinum þrátt fyrir mjög erfiða kvöldstund.

Khalili er 25 ára gömul, spilar með tyrkneska félaginu Antalya Anadolu og hefur spilað yfir tvö hundruð landsleiki á ferlinum.

Það má sjá þessa eftirminnilegu stund hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×