Erlent

Bob Dole látinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Dole árið 1996, þá í forsetaframboði gegn Bill Clinton.
Dole árið 1996, þá í forsetaframboði gegn Bill Clinton. Dirck Halstead/Getty

Bob Dole, sem var öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum í 28 ár, er látinn. Hann var 98 ára.

Í tilkynningu frá fjölskyldu Dole kemur fram að hann hafi látist í svefni snemma í morgun. Fyrr á þessu ári greindi Dole frá því að hann væri í meðferð við lungnakrabbameini sem hann hafði greinst með.

Repúblikaninn Dole var þingmaður fyrir Kansas á árunum 1968 til 1996. Hann bauð sig fram gegn demókratanum Bill Clinton í forsetakosningum vestanhafs árið 1996, en laut þar í lægra haldi. Tuttugu árum áður var hann varaforsetaefni Gerald Ford, sem tapaði í forsetakosningunum fyrir Jimmy Carter.

Dole barðist fyrir Bandaríkjamenn í síðari heimsstyrjöldinni. Breska ríkisútvarpið segir frá því að Dole hafi komist í hann krappan árið 1945 þegar hersveit hans, sem var stödd í norðurhluta Ítalíu hafi ráðist gegn þýsku vélbyssuvirki. Um þrír fjórðu af herliðinu hafi fallið og Dole sjálfur varð fyrir skoti, og var vart hugað líf.

Það þótti hið mesta kraftaverk að Dole hefði lifað af og komist aftur til heilsu eftir átökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×