Sport

„Þetta er ólýsanleg tilfinning“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolbrún Þöll Þorradóttir grætur af gleði í fangi móður sinnar.
Kolbrún Þöll Þorradóttir grætur af gleði í fangi móður sinnar. stefán pálsson

Kolbrún Þöll Þorradóttir brosti út að eyrum þegar hún mætti í viðtal með gullmedalíu um hálsinn og Evrópumeistarabikar í fanginu.

Kolbrún og stöllur hennar urðu í dag Evrópumeistarar í hópfimleikum. Ísland rauf þar með einokun Svía á gullverðlaununum.

Kolbrún átti frábæran dag eins og allir liðsmenn Íslands og framkvæmdi meðal annars súperstökkið sitt, tvöfalt heljarstökk með þremur og hálfri skrúfu.

„Þetta er ólýsanleg tilfinning. Þetta er eitthvað sem við höfum unnið svo hart að og er loksins að skila sér,“ sagði Kolbrún. „Við getum ekki verið hamingjusamari og sáttari.“

Sigurinn var eins naumur og mögulegt er. Ísland og Svíþjóð fengu jafn háa heildareinkunn, 57.250, en Íslendingar unnu fleiri áhöld en Svíar og þar með gullið.

„Þetta gat ekki staðið tæpar en við unnum tvö áhöld og stóðum okkur þannig betur í dag,“ sagði Kolbrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×