Sport

Íslendingar Evrópumeistarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland er Evrópumeistari!
Ísland er Evrópumeistari! Stefán Pálsson

Kvennalið Íslands vann til gullverðlauna á Evrópumótinu í hópfimleikum í Guimaeres í Portúgal í dag.

Íslendingar rufu þar með einokun Svía á gullverðlaununum á EM en sænska liðið hafði orðið Evrópumeistari fjórum sinnum í röð.

Ísland og Svíþjóð fengu jafn háa heildareinkunn, 57.250, en Íslendingar unnu fleiri áhöld; dans og trampolín.

Íslensku stelpurnar fagna vel heppnaðri stökkseríu.stefán pálsson

Íslendingar hófu leik á trampólíni. Íslenska liðið sýndi sínar bestu hliðar og allt ætlaði um koll að keyra þegar Kolbrún Þöll Þorradóttir framkvæmdi súperstökkið sitt, tvöfalt heljarstökk með þremur og hálfri skrúfu. Ísland fékk 17.750 í einkunn fyrir trampólínið, 1.5 hærri en í undankeppninni.

Í 2. umferðinni fóru Svíar á dýnu og fengu aftur frábæra einkunn, 18.750, og eftir það varð ljóst að allt þyrfti að ganga upp hjá Íslendingum til að ná gullinu.

Íslenska liðið glansaði í dansinum og fékk stórkostlega einkunn fyrir hann, 22.300, eða 1.6 meira en í undankeppninni.

Kolbrún Þöll Þorradóttir faðmar móður sína eftir að úrslitin lágu fyrir.stefán pálsson

Síðasta áhald Svíanna var trampólín og þrátt fyrir nokkur föll fengu þeir 16.600 í einkunn. Það þýddi að Íslendingar þurftu að fá 17.200 á sínu lokaáhaldi, dýnu, til að komast upp fyrir Svía.

Stökkin gengu vel fyrir sig og þá var bara að bíða eftir lokaeinkunninni. Og sú bið var óbærileg. En fagnaðarlætin sem brutust út þegar Íslendingar sigu fyrst upp að hlið Svía og upp fyrir þá voru ósvikin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×