Innherji

Samherji selur í Eimskip fyrir meira en milljarð

Hörður Ægisson skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Vísir/Egill

Samherji Holding, langsamlega stærsti hluthafi Eimskips með um þriðjungshlut, hefur minnkað við hlut sinn í félaginu og selt sem nemur um 1,4 prósentum.

Þetta má lesa út úr nýjum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Eimskips.

Samkvæmt heimildum Innherja seldi Samherji bréfin, samanlagt um 2,5 milljónir hluta að nafnverði, í síðari hluta nóvembermánaðar. Ætla má að sjávarútvegsrisinn hafi fengið liðlega 1.200 milljónir króna fyrir hlutinn en gengi bréfa Eimskips hefur verið um eða undir 500 krónur á hlut á undanförnum vikum.

Eignarhlutur Samherja í Eimskip er í dag tæplega 32,8 prósent en var fyrir söluna um 34,2 prósent.

Hlutabréfaverð Eimskips hefur hækkað um meira en 80 prósent á árinu og nemur markaðsvirði þess um 82 milljörðum króna. Frá því á fimmtudag í síðustu viku hefur gengi bréfa félagsins hins vegar lækkað um meira en sex prósent og stendur núna í 466 krónum á hlut.

Þriðjungshlutur Samherja í Eimskip er því metinn á um 27 milljarða króna.

Hlutabréfaverð Eimskip hefur hækkað um meira en 80 prósent frá áramótum.Vísir/Vilhelm

Á síðasta ári gerði Samherji tvisvar yfirtökutilboð í Eimskip, fyrst í marsmánuði þegar eignarhlutur Samherja fór yfir 30 prósent. Félagið fékk hins vegar síðar meir undanþágu frá fjármálaeftirliti Seðlabankans frá yfirtökuskyldunni en útgerðarfélagið fór þess á leit og vísaði til breyttra efnahagsaðstæðna vegna kórónuveirufaraldursins.

Í október á árinu 2020 fór hlutur Samherja í Eimskip að nýju yfir 30 prósent. Í kjölfarið gerði Samherji yfirtökutilboð í Eimskip og nam yfirtökugengið 175 krónum á hlut, jafnhátt hæsta verði sem Samherji hafði greitt fyrir hluti á síðustu sex mánuðum áður en tilboðsskyldan myndaðist.

Afar fáir hluthafar tóku tilboðinu, eða sem nam samtals rúmlega 0,1 prósenta hlut. Frá því tíma hefur gengi hlutabréfaverð Eimskips næstum þrefaldast.

Aðrir helstu hluthafar Eimskips, fyrir utan Samherja, eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi, Birta og LSR.


Tengdar fréttir

Samherji bætir aftur við sig í Eimskip og gerir yfirtökutilboð

Samherji Holding ehf., annar helmingur Samherjasamstæðunnar, hefur á ný eignast meira en 30 prósenta hlut í Eimskipafélagi Íslands og mun félagið gera yfirtökutilboð til allra hluthafa Eimskipafélagsins. Ekki er stefnt að afskráningu félagsins úr kauphöllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×