Skilvirk stjórnsýsla og hófleg skattheimta eru meðal stærstu hagsmunamála atvinnulífsins og þar með almennings. Skattlagning og opinber þjónusta er að stórum hluta í höndum sveitarfélaga og það er í þágu skattgreiðenda, sem og notenda þjónustu þeirra, að staðið sé að rekstri þeirra á skilvirkan og hagkvæman hátt.
Ríkar skyldur hvíla á sveitarfélögum, lögum samkvæmt, en aðstæður þeirra til að standa undir þeim eru æði ólíkar. Rekstur sumra þeirra væri reyndar ósjálfbær ef ekki kæmi til verulegrar aðstoðar í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga, sem veitir gjaldfrjálsa sérfræðiráðgjöf. Auk þess reiða mörg hver sig á samstarf við nágrannasveitarfélög við veitingu lögbundinnar þjónustu.
Jöfnunarsjóður leikur lykilhlutverk
Á seinasta ári námu framlög Jöfnunarsjóðs alls 53 milljörðum króna, þar af komu 23 milljarðar úr ríkissjóði og afgangurinn frá sveitarfélögunum sjálfum. Útsvarstekjur nema um 70% tekna sveitarfélaga, en framlög Jöfnunarsjóðs eru lífæð margra þeirra og fara þau stigvaxandi hlutfallslega eftir því sem sveitarfélögin eru fámennari. Að jafnaði nema framlög Jöfnunarsjóðs um 15% af tekjum sveitarfélaga. Árið 2019 stóðu þau fyrir 7,5% af tekjum þriggja stærstu sveitarfélaganna og 23% af tekjum hinna 68.
Dæmi eru þó um að framlög úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaga nemi um eða yfir 50% af tekjum þeirra. Eins og fram hefur komið í máli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir þessi staðreynd okkur að „líklega séu sveitarfélögin enn of fámenn og of mörg og þar með ekki sjálfbærar einingar til að geta sinnt lögbundnum verkefnum sínum“.
Flest íslensk sveitarfélög undir hagkvæmri stærð
Í samanburði örríkja (með færri en eina milljón íbúa) skera íslensk sveitarfélög sig úr hvað varðar mikið sjálfræði, sjálfstæða tekjustofna og umfang verkefna. Þrátt fyrir það glímir sveitarstjórnarstigið á Íslandi við svipuð vandamál og þekkjast annars staðar – takmarkaða sérfræðiþekkingu, skort á starfsfólki, skort á formlegum ferlum og takmarkað bolmagn.
Ekki liggur fyrir alþjóðleg, einhlít skilgreining á því við hvaða stærðarmörk hagvæmni náist en greiningar hafa gefið til kynna að rekstur sveitarfélaga undir 10-20 þúsund íbúum sé óhagkvæmur. Flest íslensk sveitarfélög eru undir þeirri stærð.
Smæsta sveitarfélagið, Árneshreppur, telur 42 íbúa en á honum hvíla sömu skyldur og lagðar eru á herðar stærsta sveitarfélagsins, Reykjavíkur, sem telur rúmlega 133 þúsund íbúa. Tilvist ósjálfbærra eininga krefst niðurgreiðslu rekstrar, sem skapar viðvarandi kostnað fyrir skattgreiðendur og því ber að skoða með hvaða hætti hægt væri að skapa aukið hagræði. Ekki síst af þessum sökum hafa yfirvöld viljað liðka fyrir sameiningum sveitarfélaga.
Hvað knýr sameiningar?
Umleitanir yfirvalda til að knýja fram aukið hagræði með sameiningum á undanförnum áratugum hafa borið takmarkaðan árangur en helsti drifkraftur sameininga hefur verið tilfærsla verkefna til sveitarstjórnarstigsins. Snemma árs 2020 var þingsályktunartillaga um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga samþykkt. Þar kemur fram að „sveitarfélögin á Íslandi verði öflugar og sjálfbærar staðbundnar stjórnsýslueiningar“ og að „fjármögnun sveitarfélaga stuðli að hagkvæmu skipulagi sveitarstjórnarstigsins og góðri nýtingu opinberra fjármuna“. Þar segir einnig að „tryggja beri fjárhagslega og rekstrarlega getu einstakra sveitarfélaga til að standa til lengri tíma undir lögbundinni þjónustu við íbúana, innviðauppbyggingu og öðrum brýnum viðfangsefnum nærsamfélagsins.“ Markmiðin virðast augljós en hvernig er hægt að stuðla að þessari þróun?
Á seinasta ári voru einnig samþykktar nýjar reglur um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs, sem greiða eiga fyrir sameiningum sveitarfélaga. Hins vegar eru enn þættir í hvatakerfi sveitarfélaga sem stuðla á móti að óhagkvæmum rekstri og vinna gegn þróun í átt að hagkvæmari einingum.
Dökk framtíð minni sveitarfélaga
Auk flutnings velferðarverkefna hefur lýðfræðileg þróun þyngt rekstur smærri sveitarfélaga og sú verður þróunin áfram. Samkvæmt mannfjöldaspá Byggðastofnunar mun íbúum átta stærstu sveitarfélaganna fjölga um tæplega 30% og íbúum minni sveitarfélaganna 61 fækka um 10% á næstu þremur áratugum.
Fyrirsjáanleg fjölgun eldri borgara, ekki síst í smærri byggðarlögum, þýðir að róðurinn mun þyngast enn frekar.
Draga mun úr skatttekjum samhliða aukinni félags- og heilbrigðisþjónustu við aldraða, þ.e. tekjur minnka og útgjöld aukast hjá minni sveitarfélögum í samanburði við þau stærri. Að óbreyttu munu smæstu sveitarfélögin ekki geta staðist þessar breytingar. Þrátt fyrir það telja minni sveitarfélög sig ekki nauðbeygð til sameiningar.
Án viðbragða verður niðurgreiðsla skattgreiðenda á ósjálfbærum rekstri sífellt kostnaðarsamari. Þótt reglur um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga hafi verið samþykktar þá vinnur sjóðurinn enn með öðrum hætti gegn sameiningum. Tryggja þarf að fyrirkomulag stuðnings við lítil sveitarfélög hamli ekki nauðsynlegum umbótum á sveitarstjórnastiginu. Lagaumgjörðin ætti að stuðla að hagkvæmni og sjálfbærni, en því er nú öfugt farið að ýmsu leyti. Þetta er tímabært að endurskoða.
Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.