Skoðun

Veitinga­menn fá ó­verð­skuldaða kar­töflu í skóinn

Hrefna Björk Sverrisdóttir og Jóhannes Þór Skúlason skrifa

Þær sex vikur í aðdraganda jóla sem afmarkast af aðventunni og hluta nóvembermánaðar hafa í gegnum tíðina skilað allt að 30% af ársveltu veitingastaða. Væntar tekjur þessa tímabils hafa gert rekstraraðilum kleift að viðhalda mannauði og halda úti eðlilegri starfsemi aðra mánuði ársins, en veitinghús verja nú um 50% af tekjum sínum í launakostnað. Árið 2019 störfuðu um 10 þúsund manns í veitingageiranum.

Þegar orðið fyrir gríðarlegu tekjutapi

Á síðasta ári skáru sóttvarnaraðgerðir með tilheyrandi fjóldatakmörkunum og skertum opnunartíma verulega úr tekjustreymi veitingastaða. Það hafði gríðarleg áhrif á afkomu veitingastaða en heildartekjutap í veitingasölu milli áranna 2019 og 2020 var um 45 milljarðar króna. Ofan á það bættist að meginþorri veitingastaða féllu ekki undir stuðningsaðgerðir stjórnvalda varðandi lokunar- og/eða tekjufallsstyrki. Veitingamenn þurftu því flestir að treysta á eigið fé eða skuldsetningu til að koma sér út úr þrenginunum.

Í ár höfðu rekstraraðilar gert sig klára í mjög fjöruga aðventu eftir takmarkanir síðustu missera og fjölgað starfsfólki með hliðsjón af því, en t.d. treystir stór hluti námsmanna á aukavinnu í veitingageiranum í desember til að fleyta sér yfir vetrarmánuðina. Einnig hefur verið miklu til kostað í hráefni og annan efniðvið til að gera tímann í aðdraganda jóla gleðilegan gestum. Kostnaðurinn liggur nú algjörlega á herðum veitingamanna þar sem stjórnvöld hafa enn og aftur þrengt að starfsemi þeirra með sóttvarnaraðgerðum án mótvægisaðgerða.

Stuðningsaðgerða er þörf

Eftir að síðustu takmarkanir í sóttvarnaraðgerðum voru kynntar hafa afbókanir hrúgast inn hjá veitingahúsum. Fyrirtæki á veitingamarkaði sitja því enn og aftur í súrnum en reikna má með að launakostnaður veitingahúsa næstu vikur verði um 70% af tekjum eða meira og í sumum tilfellum yfir 100%, en í báðum tilfellum endar afkoma veitingastaða í rauðum tölum og það fyrir tímabil sem í eðlilegu árferði stendur undir útgjöldum fyrstu mánaða næsta árs.

Það er afar mikilvægt að stjórnvöld axli ábyrgð á þeim takmörkunum sem settar hafa verið á starfsemi fyrirtækja í veitingasölu og -þjónustu og komi að þessu sinni til móts við tjón rekstraraðila vegna sóttvarnaaðgerða með beinum stuðningi, enda fordæmi fyrir slíkum aðgerðum á öðrum sviðum atvinnulífsins. Mannauðurinn er ein helsta auðlind fyrirtækja á veitingamarkaði og enginn vafi leikur á því að skynsamlegar mótvægisaðgerðir væru lykilþáttur í því að fyrirtækin geti staðið áfram undir launakostnaði og haldið ráðningarsambandi við starfsfólk.

Hrefna Björk Sverrisdóttir, formaður Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar




Skoðun

Sjá meira


×