Innlent

Leituðu þriggja ferða­manna við gos­stöðvarnar en fundu tvo aðra í staðinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Björgunarsveitarfólk að störfum við gosstöðvarnar í vor.
Björgunarsveitarfólk að störfum við gosstöðvarnar í vor. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út fyrr í dag vegna þriggja ferðalanga sem villtust við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Við leitina fann björgunarsveitarfólk tvo aðra ferðalanga sem voru kaldir og hraktir.

Í samtali við fréttastofu segir Davíð Már Björgvinsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, að þrír ferðamenn sem höfðu villst af gönguleiðinni að gosstöðvunum hefðu sett sig í samband við viðbragðsaðila. Í kjölfarið hafi björgunarsveitarfólk hafist handa við að leita að fólkinu.

Síðan hafi rofað til og ferðamennirnir fundið gönguleiðina af sjálfsdáðum, og gengið að bílastæðinu við upphaf gönguleiðarinnar.

Meðan á leit björgunarfólks stóð rambaði það fram á tvo aðra ferðamenn, sem voru orðnir kaldir og hraktir efst í Langahrygg. Þannig lagði björgunarfólkið af stað í leit að þremur ferðamönnum en hafi þess í stað fundið tvo aðra ferðamenn sem voru aðstoðar þurfi.

Björgunarfólkið aðstoðaði ferðamennina tvo niður og kom þeim til byggða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×