Viðræður eru um sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Magn Magni í Færeyjum – á bilinu 35 til 40% prósent tekna Skeljungs koma frá Færeyjum – auk þess að Skeljungur hefur sett fjölda fasteigna í formlegt söluferli og ráðist í skipulagsbreytingar sem skipta fyrirtækinu í sérhæfðar einingar.
Skeljungur hyggst selja P/F Magn til Sp/f Orkufélagsins fyrir alls 12,3 milljarða króna, eða 10 milljarða að frádregnum yfirteknum skuldum. Allt að 23 prósentum af söluverðinu verður endurfjárfest í Sp/f Orkufélaginu og með því eignast Skeljungur allt að 49 prósenta eignarhluta færeyska félaginu.
Salan hefur ekki gengið í gegn en miðað við þessa skilmála mun verðmatsgengið hækka í allt að 11,9 krónur að mati greinanda Jakobsson Capital.
„Óháð sölunni á Magn er greinandi mun spenntari fyrir sölu eigna,“ segir í verðmatinu. Skeljungur hefur sett fjölda fasteigna, sem eru nýttar undir rekstur félagsins, í söluferli en heildarvirði eigna sem um ræðir nemur um 10 milljörðum króna samkvæmt bráðabirgðamati.
„Ávinningurinn í þessum viðskiptum liggur líklega í því að sú ávöxtunarkrafa sem er gerð til fasteigna er lægri en sú ávöxtunarkrafa sem er gerð á Skeljung og verðmat fasteigna hærra en bókfært virði,“ segir í verðmatinu.
Greinandinn segir ógerning að leggja mat á viðskiptin fyrr en söluverðið og söluhagnaðurinn liggi fyrir. Hins vegar sé ljóst að fjárfestar veðji á mikinn söluhagnað. „Miðað við gengi Skeljungs á markaði og verðmat Jakobsson Capital virðast fjárfestar gera ráð fyrir um 5 milljarða króna söluhagnaði af sölu Magns og fasteigna.“
Hlutabréfaverð Skeljungs hefur rokið upp frá því í byrjun ágústmánaðar en þá nam það tæplega 11 krónum. Hækkunin síðan þá nemur meira en 25 prósentum.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.