Skoðun

Frjálslyndið vaknar í Rangárvallasýslu

Bjarki Eiríksson skrifar

Í öllum þrem sveitarfélögum Rangárvallasýslu eru starfandi óháð framboð í sveitarstjórnum. Auk þess eru svæðisfélög rótgróinna stjórnmálaflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem lengst af hafa haldið um stjórnartaumana í Rangárþingi Ytra og Rangárþingi Eystra. „Er þá þörf fyrir nýtt stjórnmálaafl á svæðinu?“ gætu þá einhverjir spurt sig.

Já, svo sannarlega. Það er þörf og rými fyrir frjálslynt stjórnmálaafl, sem mun verða kærkomin viðbót í stjórnmálaflóru Rangárvallasýslu og vonandi glæða lífi og litum í sveitarstjórnarmálin á svæðinu.

Því munum við, næstkomandi laugardag, 20. nóvember klukkan 11, stofna nýtt félag Viðreisnar í Rangárvallasýslu og verður stofnfundurinn haldinn í Menningarsalnum á Hellu.

Af hverju þarf nýtt af núna?

„Af hverju núna?“ gætu sumir spurt sig. Hvers vegna í ósköpunum við stöndum því í að stofna til nýrrar stjórnmálahreyfingar á meðan Sjálfstæðisflokkur nýtur svo mikils stuðnings í Rangárþingi Ytra og Framsóknarflokkur í Eystra og svo eiga óháðu framboðin sína fulltrúa í sveitarstjórnum. Jú einmitt vegna þess að ef ekki nú, hvenær þá?

Ég hef trú á að á svæðinu leynist frjálslynt fólk á öllum aldri sem vill hrista upp í hlutunum og gera breytingar á stjórnsýslunni. Sérstaklega að auka fagmennsku innan hennar sem og gagnsæi, í bland við meðal annars umhverfis- og lýðheilsumál og vinna að lausnum til að gera búsetu fyrir ungt fólk meira aðlaðandi.

Frjálslyndi, mannréttindi, fagleg stjórnsýsla og almannahagsmunir

Þarna úti eru trúlega fleiri en ég sem tengja við það að vera pólitískt landlaus. Í leit að stjórnmálahreyfingu með gildi sem ríma betur við þeirra eigin en þeir flokkar sem fyrir eru í Rangárvallasýslu? Sem telja sig annað hvort til miðju- eða hægri á stjórnmálarófinu en hugnast ekki hugmyndafræði gömlu flokkanna. Það er einmitt þess vegna sem að okkur þykir tímabært að stofna svæðisfélag Viðreisnar í Rangárvallasýslu.

Von mín er sú að með tilkomu Viðreisnar í Rangárvallasýslu munu fleiri einstaklingar sem aðhyllast frjálslynda hugmyndafræði, styðja mannréttindi og mannréttindabaráttu, vilja taka stór skref í umhverfis- og loftslagsmálum og síðast en ekki síst, láta almannahagsmuni ganga framar sérhagsmunum, verða meira áberandi í stjórnmálum og stjórnsýslu sveitarfélaganna á svæðinu og ganga til liðs við rísandi afl í íslenskum stjórnmálum, bæði á landsvísu og sveitarstjórnarstigi.

Höfundur er áhugamaður um stjórnmál.




Skoðun

Sjá meira


×