Viðskipti erlent

Starfsmenn krefjast þess að forstjóri Activision Blizzard verði rekinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Bobby Kotick, forstjóri Activision Blizzard.
Bobby Kotick, forstjóri Activision Blizzard. Getty/Scott Olson

Starfsmenn leikjarisans Activision Blizzard, eins stærsta tölvuleikjafyrirtækis heims, ætla að leggja niður störf á morgun. Þeir krefjast þess að Bobby Kotick, forstjóri fyrirtækisins til langs tíma, verði rekinn.

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið undir miklum þrýstingi undanfarna mánuði vegna ásakana og rannsókna á „eitraðri“ starfsmenningu og fjölda kvartana kvenna sem þar hafa unnið í gegnum árin.

Saksóknarar í Kaliforníu höfðuðu mál gegn fyrirtækinu í sumar í kjölfar tveggja ára rannsóknar.

Fyrirtækinu var líkt við svokallað bræðrafélag (fraternity á ensku) og því haldið fram að konur væru ítrekað áreittar kynferðislega og fengju lægri laun. Þá voru forsvarsmenn AB gagnrýndir fyrir aðgerðarleysi varðandi ábendingar um þessa hegðun.

Þá var vísað til atviks þar sem kona svipti sig lífi á ferðalagi með yfirmanni sínum. Hún hafði orðið fyrir mikilli áreitni áður en hún dó. Meðal annars höfðu samstarfsmenn hennar dreift nektarmyndum af henni sín á milli.

Kotick hefur haldið því fram að hann hafi aldrei heyrt af mörgum málum sem ljósi hefur verið varpað á á árinu.

Wall Street Journal sagði þó frá því í dag (Áskriftarvefur) að frá því í sumar hefði Activision fengið meira en fimm hundrað tilkynningar frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum um meint kynferðisbrot, áreitni, níð, launamisrétti og annað.

Það er mun meira en áður hefur komið fram en einnig kom fram í frétt miðilsins að Bobby Kotick hafi vitað af mörgum þeirra og jafnvel gripið inn í ferla og komið í veg fyrir refsingar. Kotick sjálfur sagði aðstoðarkonu sinni eitt sinn að hann myndi láta drepa hana.

WSJ vísar meðal annars til máls þar sem kona sagði yfirmann sinn hjá Sledgehammer Games, leikjafyrirtækis í eigu AB og sem unnið hefur að Call of Duty seríunni, hafa nauðgað sér tvisvar sinnum. Hún tilkynnti málið til mannauðsdeildar fyrirtækisins en ekki var gripið til neinna aðgerða.

Eftir að honum barst póstur frá lögmanni konunnar gerði Kotick samkomulag við hana utan dómstóla. Þá sagði hann stjórn AB ekki frá málinu. WSJ segir Kotick hafa ítrekað beitt sér til að kæfa mál sem þessi og verndað meinta gerendur innan fyrirtækisins.

Frétt WSJ féll ekki í kramið hjá starfsmönnum Activision Blizzard sem ætla að leggja niður störf og krefjast þess að Kotcik verði rekinn.

Hér má sjá tíst frá starfsmannafélagi Activision Blizzard um kröfuna.

WSJ sagði einnig frá ásökun gegn Dan Bunting, yfirmanni Treyarch, sem er annað leikjafyrirtæki sem er í eigu AB og hefur komið að Call of Duty-seríunni. Bunting var sagður hafa áreitt konu sem vann fyrir hann árið 2017 og lögðu lögmenn AB til í kjölfar rannsóknar árið 2019 að hann yrði rekinn.

Bunting hélt þó starfi sínu, eftir að Kotick greip inn í mál hans og kom honum til varnar. Hann virðist þó hafa sagt upp starfi sínu í dag, samkvæmt frétt Polygon.

Jennifer Oneal, sem gerð var að meðstjórnanda Blizzard, undirfyrirtækis Activision Blizzard, í ágúst í kjölfar frétta af rannsókn saksóknara í Kaliforníu, sendi tölvupóst til eins lögmanna AB um mánuði síðar. Samkvæmt frétt WSJ sagði Oneal í póstinum að hún hefði takmarkaða trú á því að forsvarsmenn fyrirtækisins vildu bæta starfsmenninguna.

Hún sagði einnig að hún hefði verið áreitt kynferðislega við störf sín hjá AB og að hún fengi þar að auki lægri laun en meðstjórnandi hennar, sem er karlmaður. Því vildi hún ræða við forsvarsmenn fyrirtækisins um uppsögn sína.

Uppfært 19:55

Stjórn Activision Blizzard hefur gefið út tilkyningu þar sem segir að hún beri enn traust til Kotick.


Tengdar fréttir

Leikjaiðnaðurinn skuldbindur sig til að tryggja kynferðislegt öryggi

Leiðandi aðilar á íslenskum tölvuleikjamarkaði undirrituðu sérstakan sáttmála í dag þar sem þeir skuldbinda sig til að líða ekki kynferðislega áreitni eða kynbundið ofbeldi af neinu tagi innan sinna vinnustaða. Slíka óæskilega hegðun verði reynt að stöðva og koma í veg fyrir að hún endurtaki sig ef hún á sér stað.

Mikil ólga eftir ásakanir um „eitraða menningu“ og stanslausa áreitni

Starfsmenn eins stærsta tölvuleikjafyrirtækis heims hafa fordæmt forsvarsmenn þess vegna ásakana um eitraða menningu innan veggja fyrirtækisins. Rúmlega þúsund starfsmenn Activision Blizzard skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem viðbrögð forsvarsmanna fyrirtækisins við rannsókn yfirvalda í Kaliforníu á starfsmenningu þar og stöðugrar kynferðislegrar áreitni í garð kvenna sem þar vinna eru harðlega gagnrýnd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×