Innherji

Dagur í lífi Magnúsar Berg: „Engar afsakanir í boði“

Ritstjórn Innherja skrifar
Magnús Berg Magnússon er forstjóri danska hönnunarfyrirtækisins NORR11.
Magnús Berg Magnússon er forstjóri danska hönnunarfyrirtækisins NORR11.

Magnús Berg Magnússon er forstjóri danska hönnunarfyrirtækisins NORR11. Hann vaknar á bakaratíma til að fara út að hlaupa og segir danska samstarfsmenn dæma hart fyrir bruðlið sem það er að kaupa kaffi þegar það er hægt að fá það frítt á skrifstofunni.

05:30 Ég vakna um það bil annan hvern morgun á bakaratíma og fer út að hlaupa. Ég er að undirbúa mig fyrir maraþon á næsta ári í Brooklyn og engar afsakanir í boði. Ég elska að ná þessu forskoti á daginn og geta verið einn í hugsunum mínum á morgnana án áreitis frá vinnu.

06:30 er ég að lenda heima og fjölskyldan er að vakna. Yngsti sonur minn er yfirleitt fyrstur upp og er byrjaður að skipa okkur hinum fyrir. Ég kveiki á kaffivélinni og geri kaffi fyrir mig og Sól konuna mína.

Svo tekur við hektískur klukkutími sem er allur hálfpartinn í móðu en endar með því að allir eru klæddir, hundurinn okkar hún Hneta er búin að fara út og gera allar sínar þarfir og búið að græja nesti fyrir eldri strákinn. Við göngum út og skiljum við heimilið líkt og sprengja hafi fallið.



8:30 Ég hjóla yfirleitt í vinnuna og stundum tek ég hundinn með á hjólið en hún er einskonar skrifstofuhundur á NORR11 skrifstofunni og reglulega spurt um hana ef hún mætir ekki.

Skrifstofa NORR 11 í Kaupmannahöfn þar sem spurt er um skrifstofuhundinn Hnetu ef hún mætir ekki



09:00 Ég skipulegg daginn og vinn á inboxinu áður en fundir dagsins hefjast. Ég reyni hvað ég get að vinna með ýmis skipulagningartól en enda yfirleitt á handskrifuðum todo lista. Hérna er ég á öðrum kaffibolla en á fullkomnum degi förum við Sól saman og náum okkur í filter kaffi frá Coffee Collective hinumegin við götuna. 

Samstarfsfélagar okkar eru flestir Danir og dæma hart fyrir bruðlið sem það er að kaupa kaffi þegar það er frítt á skrifstofunni.



11:00 hefjast oftast fundir en á fyrri hluta vikunnar reyni ég að raða öllum innanhússfundum með fjármálastjóra, sölustjóra, framleiðslustjóra og markaðsstjóra og utanaðkomandi fundum á seinni hluta viku. Ég reyni að halda miðvikudögum algjörlega fundafríjum en það gerist sjaldnar nú orðið að það takist eftir að Microsoft Outlook tók yfir vinnustaðinn og samstarfsfólk mitt fór að hafa aðgang að dagatalinu mínu.



12:00 fáum við hádegismat frá Meyers eldhúsinu en þeir eru þekktir fyrir mjög heilsusamlegan en bragðgóðan hádegismat. Við leggjum mikið upp úr því að allir borði hádegismat saman og helst ræði fólk eitthvað allt annað en vinnuna.



15:00 Engir tveir dagar eru eins en hérna eru fundir oftast yfirstaðnir og hægt að fara vinna að málunum sem eru í gangi hverju sinni og skipuleggja næstu vikur. Konan mín sækir strákana okkar flesta daga á leikskóla og skóla en þá daga sem ég sæki hoppa ég á hjólið 15:45.

Magnús og eiginkona hans, Júlíana Sól, sækja strákana sína í skólann að dönskum sið. 

17:30 Ég er oftast að koma heim á milli 17 og 18 og þá taka við gæðastundir með fjölskyldunni. Þar sem við búum fjarri fjölskyldu þá eyðum við miklum tíma saman og höfum það gott. 

Þegar strákarnir sofna þá tökum við oftast að minnsta kosti einn þátt á einum af 800 streymisveitunum sem við erum áskrifendur af.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×