Handbolti

Krafa um bólusetningu ekki vandamál fyrir strákana okkar

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson fagnar marki á HM í Egyptalandi í janúar. Ekki náðist að bólusetja leikmenn íslenska liðsins fyrir það mót en nú eru allir bólusettir.
Gísli Þorgeir Kristjánsson fagnar marki á HM í Egyptalandi í janúar. Ekki náðist að bólusetja leikmenn íslenska liðsins fyrir það mót en nú eru allir bólusettir. EPA-EFE/Petr David Josek

Fari handknattleikssamband Evrópu, EHF, þá leið að banna óbólusettum að mæta á Evrópumót karla í janúar kemur það ekki til með að bitna á íslenska landsliðinu.

Alþjóða handknattleikssambandið tilkynnti um það í síðustu viku að bólusetning gegn Covid-19 væri skilyrði fyrir því að taka þátt á HM kvenna á Spáni í næsta mánuði. 

Sú krafa á við um leikmenn, þjálfara, sjúkraþjálfara, lækna, stjórnarfólk og dómara sem þurfa þar með að framvísa bólusetningarvottorði.

Verði sami háttur hafður á í janúar, þegar EM karla fer fram, kemur það ekki til með að skapa nein vandamál fyrir íslenska landsliðið, samkvæmt svari Róberts Geirs Gíslasonar framkvæmdastjóra HSÍ við fyrirspurn Vísis.

„Það eru ekki sambærilegar reglur hjá EHF enn sem komið er en ég reikna með að allir leikmenn séu bólusettir. Það var tilvikið núna í nóvember þegar við æfðum saman,“ sagði Róbert en íslenska landsliðið kom saman fyrr í þessum mánuði til æfinga hér á landi.

Aron Pálmarsson á æfingu íslenska landsliðsins í Víkinni fyrr í þessum mánuði. Allir mættu bólusettir til þeirra æfinga, að sögn framkvæmdastjóra HSÍ.vísir/vilhelm

Þegar HM karla fór fram í Egyptalandi í janúar síðastliðnum var ekki gerð krafa um að liðin væru bólusett gegn Covid-19, enda bólusetningar þá rétt að hefjast í heiminum. 

Mótið varð að hálfgerðu fíaskói þar sem leikið var án áhorfenda, sum liðanna misstu út lykilmenn vegna smita, og Bandaríkin og Tékkland þurftu að hætta alveg við þátttöku vegna hópsmita.

EM karla fer fram dagana 13.-30. janúar, í Ungverjalandi og Slóvakíu. Ísland leikur sína leiki í Búdapest og er í riðli með Portúgal, Hollandi og Ungverjalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×