Enski boltinn

Tékkneskur milljarðamæringur kaupir stóran hlut í West Ham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
West Ham hefur gengið allt í haginn í upphafi tímabils.
West Ham hefur gengið allt í haginn í upphafi tímabils. getty/Rob Newell

Tékkneski milljarðamæringurinn Daniel Kretinský hefur keypt 27 prósenta hlut í enska úrvalsdeildarliðinu West Ham.

Undanfarnar vikur hefur Kretinský átt í viðræðum um kaup á hlutabréfum í West Ham og þau hafa nú gengið í gegn. Í samningnum er ákvæði þess efnis að Kretinský geti eignast meirihluta í félaginu þegar fram líða stundir. David Sullivan og David Gold hafa átt West Ham síðan 2010.

Hinn 46 ára Kretinský á núna sæti í stjórn West Ham ásamt félaga sínum og landa, Pavel Horsky.

Kretinský er meðeigandi og forseti Sparta Prag í Tékklandi. Hann á 94 prósenta hlut í stærsta orkufyrirtæki Mið-Evrópu, EPH, og á stærstan hlut í bresku póstþjónustunni og næststærstan í verslunarkeðjunni Sainsbury's.

Kretinský sá West Ham vinna 3-2 sigur á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Hamrarnir hafa spilað vel á tímabilinu, eru í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og á toppi síns riðils í Evrópudeildinni.

Tveir Tékkar leika með West Ham, Thomas Soucek og Vladimir Coufal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×