Lífið

Saman í fimm­tán ár og hafa aldrei rifist

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Þau Birkir Már Sævarsson og Stefanía Sigurðardóttir, eða Stebba, eru viðmælendur í nýjasta þættinum af hlaðvarpinu Betri Helmingurinn með Ása.
Þau Birkir Már Sævarsson og Stefanía Sigurðardóttir, eða Stebba, eru viðmælendur í nýjasta þættinum af hlaðvarpinu Betri Helmingurinn með Ása. Betri helmingurinn

Þau Birkir Már og Stebba kynntust í íþróttafræðinámi á Laugarvatni. Stebbu leist hins vegar ekki á blikuna í fyrstu þegar Birkir gerði henni ljóst hvaða tilfinningar hann bæri til hennar. Hún var tveggja barna móðir og hann þremur árum yngri. Þau smullu þó fljótlega saman og voru flutt inn saman nokkrum mánuðum síðar.

Birkir Már Sævarsson hefur gegnt lykilhlutverki íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Hann var úti í atvinnumennsku í átta ár, bæði í Noregi og Svíþjóð áður en hann flutti aftur heim til Íslands með fjölskyldunni árið 2017. Í dag spilar hann með uppeldisfélagi sínu Val.

Betri helmingur Birkis er Stefanía Sigurðardóttir, alltaf kölluð Stebba. Hún er íþróttafræðingur að mennt og starfar á leikskóla. Samhliða því þjálfar hún yngri flokka drengja í fótbolta og er í leikskólakennaranámi.

Þau Birkir og Stebba voru gestir í þrítugasta þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása sem hóf göngu sína síðasta vor. Umsjónarmaður þáttanna er Ásgrímur Geir Logason. Hann fær til sín þjóðþekkta einstaklinga ásamt þeirra betri helming og ræðir um ástarsambandið, lífið og tilveruna.

Í þættinum segja þau frá því hvernig leiðir þeirra lágu saman fyrir fimmtán árum síðan þegar þau voru saman í árgangi í íþróttafræðinámi á Laugarvatni. Þau minnast þess að hafa átt sitt fyrsta spjall á busakvöldinu.

Sagði honum að gjöra svo vel að finna sér einhverja á sínum aldri

„Ég man að ég sagði mömmu frá því að ég hefði hitt hann. Þá var ég ekki með neitt í huga að við færum að vera saman en mér fannst bara svo magnað hvað var gaman að spjalla við hann,“ segir Stebba um þeirra fyrstu kynni.

Þar sem þau voru á sama ári í náminu eyddu þau öllum dögum saman og fór Birki að lítast vel á Stebbu.

„En þegar Birkir fór að gera sínar hosur grænar fyrir mér þá hló ég nú svolítið framan í hann og sagði honum að gjöra svo vel að finna sér einhverja á sínum aldri,“ segir Stebba en þriggja ára aldursmunur er á milli þeirra.

Stebba segir það hafa spilað inn í að hún átti tvö börn úr fyrra sambandi, sem þá voru þriggja og fimm ára, og sá ekki fyrir sér að hún myndi eignast fleiri. Hún segist því aðeins hafa borið hans hagsmuni fyrir brjósti.

Það var síðan örlagaríkt vídeókvöld á herbergi Birkis á heimavistinni sem Stebbu snerist hugur og þau smullu saman. Hlutirnir þróuðust hratt og hann var fluttur inn til Stebbu og barnanna um áramótin.

„Mér fannst það aldrei vera neitt vandamál. Ég held þeim hafi líkað vel við mig alveg í byrjun eða allavega upplifði ég það þannig,“ segir Birkir um það hvernig það var að koma inn í fjölskylduna.

„Birkir er náttúrlega þannig maður að það líkar engum illa við hann,“ bætir Stebba við.

Verðmiðinn blasti við brúðkaupsgestum

Á þessum tímapunkti var fótboltaferill Birkis farinn af stað og árið 2008 flutti fjölskyldan til Noregs. Ári síðar gengu þau í hjónaband og fór brúðkaupið fram á Íslandi.

„Ég er ekkert sérstaklega mikið fyrir að vera kaupa mér föt eða gera mig yfirhöfuð neitt fína. Svo fann ég þarna einhvern kjól úti í glugga í Noregi sem kostaði tíu þúsund kall íslenskar og ég ætlaði að gifta mig í honum,“ segir Stebba en hún hafði hugsað sér að klæðast skóm sem hún átti inni í skáp við brúðkaupskjólinn.

Daginn fyrir brúðkaupið kom hún hins vegar auga á rauða skó í Hagkaup sem smellpössuðu og hún ákvað að fjárfesta í fyrir stóra daginn.

„Svo erum við að fara krjúpa við þetta blessaða altari og þá man ég eftir helvítis miðanum. Þá náttúrlega bara heyrir maður að flissið byrjar,“ en undir skónum blasti við verðmiði við brúðkaupsgestunum upp á heilar 4.990 krónur. Þau hlógu að atvikinu enda taka þau sér ekki of hátíðlega.

Þau Birkir og Stebba giftu sig árið 2009. Hér má sjá 4.990 krónu skóna.Betri helmingurinn

Saman í fimmtán ár en hafa aldrei rifist

Þau hjónin segjast ekki vera mjög rómantísk að eðlisfari og tekur Birkir sem dæmi að hann hafi einu sinni í þeirra sambandstíð gefið Stebbu blóm.

En þó svo að þau séu ekki mikið fyrir kertaljós og rósablöð, elska þau að eyða tíma saman og þá sérstaklega að fara saman á íþróttaleiki, hvort sem það er fótbolti, handbolti eða körfubolti.

Aðspurð á hvaða sviðum þeim lendi helst saman í sambandinu segjast þau halda með sitthvoru fótboltaliðinu í ensku, hún með Liverpool og hann með Leeds. En að öllu gríni slepptu segjast þau aldrei í sinni fimmtán ára sambandstíð hafa rifist.

„Ég var mjög ósátt við sálfræðing sem ég talaði einu sinni við. Hún var eiginlega bara fúl þegar hún spurði hvað við rifumst um og ég sagði henni að við hefðum ekki rifist,“ segir Stebba.

Sálfræðingurinn hafi beinlínis tjáð Stebbu að það væri óheilbrigt að rífast aldrei. Því er Stebba hins vegar ekki sammála.

„Það var alltaf sagt við mig að paralíf væri ekkert eins og í bíómyndunum, það væru bara rifrildi og þetta væri bara hark. Það er bara bull, þetta þarf ekkert að vera svoleiðis.“

Þau segja lykilinn að farsælu hjónabandi þeirra felast í vináttu, virðingu og þakklæti. Þá sé verkaskiptingin á milli þeirra afar góð og reynir Birkir að leggja sitt að mörkum jafnvel þótt hann sé staddur erlendis í landsliðsferðum.

„Ég reyni svona að létta henni lífið. Þegar ég sting af í burtu, þá er náttúrlega helmingi meira fyrir hana að hugsa um og ekkert fyrir mig að hugsa um af því ég er bara á einhverju hóteli og fæ mat ofan í mig. Þannig ég svona screenshota sportabler og æfingartímana og ef það er eitthvað að fara gerast hjá strákunum,“ en börnin á heimilinu eru í dag orðin fjögur talsins og því um nóg að hugsa.

Lítið fyrir athyglina sem fylgir boltanum

Það getur fylgt því mikil fjölmiðlaumfjöllun að vera landsliðsmaður. Birkir sem er afar rólegur að eðlisfari segist hins vegar vera lítið gefinn fyrir slíka athygli.

„Ef það er mögulegt að fá einhvern annan til að taka viðtöl og svona, þá geri ég það. Maður verður alltaf að taka smá en ég held því í algjöru lágmarki. Fjölmiðlafulltrúarnir vita alveg af því að ég vil helst ekkert vera í einhverju svona dæmi. Mér finnst það bara leiðinlegt og mér hefur yfirleitt ekkert fundist ég hafa neitt merkilegt að segja,“ en honum þykir skrítið að fjölmiðlar skuli enn hafa áhuga á því að tala við hann, því upp úr honum séu engar fyrirsagnir að fá.

Í þættinum segja þau einnig skemmtilega sögu frá fæðingardeildinni þegar Stebba bauð Birki að fara heim og leggja sig í miðri fæðingu.

Þau ræða einnig landsliðsferilinn og atvinnumennskuna. Þá ræða þau einnig búsetuna í Svíþjóð og dálæti þeirra á landinu og tungumálinu en í þeim býr algjör Georg Bjarnfreðarson að eigin sögn.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við þau Birki og Stebbu í heild sinni.


Tengdar fréttir

Voru enn­þá með úti­vistar­tíma þegar þau byrjuðu saman

Elísabet og Gunnar kynntust í grunnskóla. Þau voru sætisfélagar í ensku og þurfti kennarinn stöðugt að hafa afskipti af þeim þar sem þau gátu ekki hætt að tala saman. Í 10. bekk varð vinskapurinn loks að ástarsambandi en það hafði tekið þau langan tíma að viðurkenna að þau væru kærustupar. Í dag eiga þau tvö börn saman og eru að hreiðra um sig á Íslandi eftir að hafa verið á faraldsfæti síðustu 12 ár.

Ætti að vera bannað að skilja á meðan börnin eru lítil

Þau Hjálmar Örn og Ljósa hittust fyrst á tvöföldu stefnumóti sem skólasystir Ljósu plataði hana á. Eftir stefnumótið sagðist Hjálmar gjarnan vilja hitta Ljósu aftur en tilkynnti henni þó að hann ætti stefnumót við aðra dömu daginn eftir. Ljósa var því óviss hvort hún myndi nokkurn tíman heyra frá Hjálmari aftur. Hann var hins vegar fljótur að átta sig á því að hann vildi kynnast Ljósu betur.

Voru nálægt hjónaskilnaði eftir tangónámskeið

Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona og Reynir Lyngdal kvikmyndagerðarmaður kynntust fyrst þegar þau unnu saman á kaffihúsi en voru þá bæði í sambandi og byrjuðu því ekki að deita fyrr en síðar.

Féll fyrir æsku­ástinni á fermingar­myndinni

Þau Björgvin Páll og Karen kynntust þegar þau voru unglingar. Björgvin var staddur í strákapartýi hjá bróður Karenar þegar hann sá fermingarmynd af henni uppi á vegg og ákvað að biðja um númerið hennar. Það vatt heldur betur upp á sig og hafa þau nú verið gift í tíu ár og eiga saman fjögur börn.

Töluðu saman í hálft ár áður en þau hittust loksins

Þau Sylvía og Emil höfðu verið að tala saman í hálft ár þegar Emil ákvað að láta til skarar skríða og biðja Sylvíu um að hitta sig. En þegar Sylvía var rétt ókomin heim til hans hætti Emil skyndilega við. Síðar kom þó í ljós að hann hafi einfaldlega verið stressaður. Í dag eiga þau tvo syni, fyrirtæki og níu ára samband að baki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×