Skoðun

Rafrænir húsfundir

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir skrifar

Í byrjun sumars tóku gildi breytingar á lögum um fjöleignarhús og er stjórn húsfélags nú heimilt að halda rafræna húsfundi, að einhverju leyti eða öllu, enda sé tryggt að félagsmenn geti tekið fullan þátt í fundarstörfum. Þannig getur hluti félagsmanna verið á fundarstað og hluti á fjarfundi. Þarf stjórnin að tilkynna slíkt með góðum fyrirvara og í síðasta lagi með fundarboði en heimilt er að senda fundarboð rafrænt. Í fundarboði þurfa að koma fram upplýsingar um tæknibúnað sem og upplýsingar um það hvernig félagsmenn tilkynna um rafræna þátttöku sína og hvar þeir geta nálgast upplýsingar um tilhögun rafrænnar þátttöku á húsfundi.

Stjórn húsfélags ákveður hvaða kröfur eru gerðar til tæknibúnaðar vegna rafræns fundar og á að sjá til þess að tæki sem notuð eru séu þannig að tryggt sé að uppfyllt séu lagaskilyrði sem gerð eru til húsfundar, þ.m.t. réttur félagsmanns til að sækja húsfund, taka þar til máls og greiða atkvæði. Tæknibúnaðurinn skal einnig gera það kleift að staðfesta með öruggum hætti hvaða félagsmenn sækja fundinn og hvaða tillögu- og atkvæðisrétt þeir hafa auk niðurstöðu atkvæðagreiðslna. Þegar fundur er að einhverju leyti rafrænn skal tæknibúnaðurinn tryggja að félagsmenn á fundarstað geti séð hverjir sækja fundinn rafrænt, taka þar til máls og greiða atkvæði. Sama á við um fjartengda félagsmenn gagnvart þeim félagsmönnum sem eru á fundarstað. Getur stjórnin ákveðið að félagsmenn sem taka þátt í rafrænum húsfundi skuli leggja fram spurningar um dagskrá eða skjöl o.fl. sem tengist fundinum innan tilskilins frests.

Þá er einnig heimilt að halda rafræna stjórnarfundi, leggja fram rafrænt umboð og rita fundargerð og undirrita rafrænt. Þá getur stjórn húsfélags jafnframt ákveðið notkun rafrænna skjalasamskipta og samskipta milli stjórnar og félagsmanna í stað þess að senda eða leggja fram skjöl rituð á pappír.

Þó svo eigendum fjöleignarhúsa sé nú heimilt að halda rafræna fundi og nota rafræn skjöl og tölvupósta í samskiptum sínum þá gildi lögin að öðru leyti um rafræna fundi svo sem um það hvað þarf að koma fram í fundarboði, hvað þarf að boða til fundar með löngum fyrirvara, kröfur um fundarsókn, töku ákvarðana og vægi atkvæða.

Höfundur er lögmaður




Skoðun

Sjá meira


×