Erlent

Bretar hefja notkun lyfs sem gæti markað þáttaskil í baráttunni við Covid

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Molnupiravir gæti markað þáttaskil í baráttunni við Covid.
Molnupiravir gæti markað þáttaskil í baráttunni við Covid. Merck

Bretland er fyrsta ríkið til að heimila notkun veirulyfsins molnupiravir gegn Covid-19 en rannsóknir sýna að notkun þess á fyrstu dögum sýkingar helmingar áhættuna á sjúkrahúsinnlögn og dauða af völdum SARS-CoV-2.

Notkun lyfsins, sem framleitt er af Merck, var samþykkt í gær en sjúklingar munu fá lyfinu uppáskrifað og nálgast það í næstu lyfjaverslun. Vonir eru bundnar um að lyfið muni marka þáttaskil í baráttunni við Covid-19, þar sem það er fyrsta lyfið gegn kórónuveirunni sem sjúklingar geta tekið heima hjá sér þar sem um er að ræða pillu.

Stjórnvöld í Bretlandi hafa nú þegar pantað birgðir af lyfinu fyrir 480 þúsund manns en talsmenn Merck greindu frá því í síðustu viku að fyrirtækið hefði einnig náð samningum við Bandaríkin, Ástralíu, Nýja-Sjáland, Suður-Kóreu, Singapore og Serbíu.

Vænta má þess að lyfið verði fáanlegt í Bandaríkjunum í desember en þarlend stjórnvöld hafa pantað nægar birgðir fyrir 1,7 milljón einstaklinga. Kostnaðurinn við lyfið er sagður nema 700 dölum á einstakling en meðferðin hljóðar upp á 40 pillur sem eru teknar á fimm dögum.

Stofnunin sem hefur eftirlit með lyfjum og heilbrigðistækjum í Bretlandi hefur mælt með því að fólk fái lyfið sem allra fyrst í kjölfar jákvæðra niðurstaða úr Covid-prófi og innan fimm daga frá fyrstu einkennum.

Lyfið verður gefið bæði fullbólusettum og óbólusettum einstaklingum sem tilheyra að minnsta kosti einum áhættuhóp, eru til dæmis 60 ára og eldri eða þjást af offitu. Nærri 40 þúsund einstaklingar greinast nú daglega af Covid-19 í Bretlandi.

New York Times greindi frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×