Íslenski boltinn

Hannes byrjaður að ræða við Val um framtíðina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson lék vel með Val á síðasta tímabili.
Hannes Þór Halldórsson lék vel með Val á síðasta tímabili. vísir/bára

Hannes Þór Halldórsson segist hafa rætt við Val um framtíð sína hjá félaginu. Ekki liggur þó fyrir hvað kemur út úr þeim viðræðum.

Hannes hefur leikið með Val undanfarin þrjú ár og varð Íslandsmeistari með liðinu í fyrra. Eftir síðasta tímabil samdi Valur við hollenska markvörðinn Guy Smit.

Hannes sagðist ekki ná í neinn hjá Val og sagði jafnframt að Heimir Guðjónsson, þjálfari liðsins, vildi losna við hann. Hannes á eitt ár eftir af samningi sínum við Val.

Hannes var gestur Stefáns Árna Pálssonar í Einkalífinu á Vísi. Þar var hann spurður út í stöðu sína hjá Val.

„Það verður að koma í ljós. Ég hef áður sagt hver staðan er og ætla ekkert að fara ofan í saumana á því hér og nú. Þetta verður bara að koma í ljós og það verður að segjast eins og er að ég veit það ekki alveg sjálfur,“ sagði Hannes.

„Það er allavega komið á samtal milli mín og félagsins og það var fínasta samtal. Síminn var tekinn upp. Við erum að ræða saman. Ég er búinn að segja hvernig staðan er og við erum að reyna að finna lausn á því og gerum það í sameiningu.“

Valur endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili. Valsmenn ætla sér stærri hluti á næsta tímabili og í gær kynntu þeir tvo nýja leikmenn, Aron Jóhannsson og Heiðar Ægisson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×