Innlent

Grunar að kuldi gæti valdið fölskum já­kvæðum hrað­prófum

Kjartan Kjartansson skrifar
Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Aðsend

Borið hefur á því að fólk sem hefur farið í hraðpróf fyrir Covid-19 á Selfossi fái falska jákvæða niðurstöðu. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir getgátur um að kuldi á sýnatökustað gæti verið ástæðan.

Mikið álag hefur verið á heilbrigðisstofnunina undanfarna daga þar sem margir eru í sóttkví eftir að smit greindust í skólum á svæðinu. Langar bílaraðir hafa myndast fyrir utan bílakjallara Krónunnar á Selfossi þar sem sýnataka fer fram.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segist hafa áhyggjur af fölskum jákvæðum niðurstöðum úr hraðprófum. Nokkuð sé um að þeir sem greinast smitaðir af Covid-19 í hraðprófi fái svo neikvæða niðurstöðu í nákvæmara PCR-prófi.

Starfsfólk stofnunarinnar hafi tilgátur um að of kalt hafi verið í bílakjallaranum fyrir hraðprófin.

„Það eru ákveðnar leiðbeiningar um að það megi ekki fara niður fyrir ákveðið hitastig en í gær held ég að það hafi bara verið ekki meira en fjórar gráður þarna í kjallaranum. Við erum með getgátur um að þetta gæti verið ástæðan,“ sagði Díana í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Brugðist hefur verið við með því að útvega tíu feta langan gám fyrir sýnatökuna sem verður komið fyrir í Krónukjallaranum í hádeginu á morgun. Þar á að vera hægt að halda stofuhita.

Díana sagðist ekki hafa tölur um hversu algengt það væri að fólk fengi falska jákvæða niðurstöðu úr hraðprófi. Í hennar huga væri þó betra að prófin gæfu falska jákvæða niðurstöðu en falska neikvæða.

„Fólk færi svo bara út í samfélagið og væri með Covid. Þó að það sé ekki gott þegar prófin eru ekki næm þá er í raun betra að það sé í þessa átt heldur en hina áttina,“ sagði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×