Erlent

Telur veru­lega hættu á nýjum stríðs­á­tökum í Bosníu og Hersegóvínu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fulltrúar EUFOR, friðargæslusveitar á vegum Evrópusambandsins í Bosníu og Hersegóvínu, telja nú um sjö hundruð.
Fulltrúar EUFOR, friðargæslusveitar á vegum Evrópusambandsins í Bosníu og Hersegóvínu, telja nú um sjö hundruð. Getty

Hætta er á því að Bosnía og Hersegóvína brotni upp í smærri einingar og verulegar líkur eru taldar á því að stríðsátök brjótist þar út á ný.

Þetta segir Christian Schmidt, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Bosníu í nýrri skýrslu.

Schmidt bendir á að aðskilnaðarsinnar Serba í landinu hafi hug á því að stofna eigin her, eða kljúfa núverandi her í tvennt eftir þjóðerni. Gangi það eftir verði Sameinuðu þjóðirnar að bæta í friðargæslusveitir sínar í landinu.

Nú eru um sjö hundruð friðargæsluliðar í Bosníu en það fyrirkomulag kemur til endurskoðunar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna síðar í vikunni. Rússar hafa lýst sig andsnúna því að fyrirkomulagið verði áfram með sama hætti og verið hefur.

Leiðtogi Bosníu Serba, Milorad Dodik, hefur hótað því að draga Serba út úr öllum ríkisstofnununum, þar á meðal hernum og vill hann að stjórnarherinn hafi sig á brott frá þeim hluta landsins þar sem Serbar búa en í Bosníu Hersegóvínu búa auk Serba Bosníumenn og Króatar.

Hann hefur einnig talað fjálglega um að hann eigi vini sem muni aðstoða Serba í baráttu sinni, og á þar væntanlega við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×