Erlent

Minnst 150 hafa farist í aurskriðum á Indlandi og Nepal

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Á annan hundrað hafa farist í flóðum og aurskriðum í norðurhluta Indlands og Nepal undanfarna daga.
Á annan hundrað hafa farist í flóðum og aurskriðum í norðurhluta Indlands og Nepal undanfarna daga. EPA-EFE/R VIJAYAN

Meira en 150 hafa farist undanfarna daga vegna mikilla flóða og aurskriða sem hafa fallið víða í norðurhluta Indlands og Nepal. Hamfarirnar hafa valdið því að vegir og hús hafa horfið undir vatni og aur. 

Yfirvöld segja að tuga sé enn saknað og samkvæmt upplýsingum úr Uttarakhand héraði í Indlandi hafa 46 farist undanfarna daga og ellefu er enn saknað. Pinarayi Vijayan, héraðsstjór Kerala, tilkynnti í dag að 39 hafi farist í héraðinu. Fréttastofa Al Jazeera greinir frá. 

Minnst þrjátíu þeirra sem farist hafa í Uttarakhand fórust í hamfararigningum snemma í gærmorgun en rigningarnar ullu því að síðar um daginn féllu tugir aurskriða og fjöldi húsa skemmdist. Fimm þeirra voru í sömu fjölskyldunni, sem var heima hjá sér þegar aurskriða féll á hús þeirra. 

Fimm til viðbótar fórust í aurskriðu á Almora svæðinu eftir að aurskriða féll á heimili þeirra. 

Samkvæmt upplýsingum frá veðurstofu Indlands féllu meira en 400 mm af rigningu á mánudag. Yfirvöld hafa skipað skólum að loka og bannað trúarsamkomur á svæðinu. 

Í Nepal hafa 77 farist svo vitað sé, 22 eru slasaðir og 26 er enn saknað. Aurskriður eru viðvarandi vandamál í Himlaya-fjöllunum en sérfræðingar segja að þeim fjölgi aðeins eftir því sem rigningatíðir verða óreglulegri og jöklar fjallanna bráðna. 

Í febrúar fórust um 200 í skyndiflóði í Uttarakhand og minnst 5.700 fórust í héraðinu vegna flóða og aurskriða árið 2013. 

Veðurfræðingar vara við því að rigningar haldi áfram á svæðinu á næstu dögum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×