Sport

Morðingi Agnesar Tirop handtekinn eftir flótta undan lögreglunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emmanuel Rotich eftir að hann var handtekinn. Til hægri sést illa farinn bíll sem hann reyndi að flýja í.
Emmanuel Rotich eftir að hann var handtekinn. Til hægri sést illa farinn bíll sem hann reyndi að flýja í.

Lögreglan í Kenía hefur handtekið Emmanuel Rotich sem er grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína, langhlauparann Agnesi Tirop.

Hún fannst látin á heimili sínu á þriðjudaginn. Fljótlega beindist grunurinn að Rotich og lögreglan hóf leit að honum.

Hann var loks handtekinn í gærkvöldi. Rotich ætlaði sér að komast úr landi en varð ekki kápan úr því klæðinu. Fyrr um daginn hafði hann naumlega sloppið frá lögreglunni eftir að hafa keyrt á vörubíl. Rotich var yfirheyrður af lögreglunni og mætir fyrir rétt í dag.

Af virðingu við Tirop hefur frjálsíþróttasamband Kenía slegið af allar keppnir næstu tvær vikurnar.

Tirop var 25 ára þegar hún lést. Í síðasta mánuði setti hún heimsmet í tíu kílómetra götuhlaupi í Þýskalandi þegar hún kom í mark á 30:01 mínútum. Hún sló gamla heimsmetið um 28 sekúndur.

Tirop vann til bronsverðlauna í 10.000 metra hlaupi á HM 2017 og 2019 og lenti í 4. sæti í 5000 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Þá vann hún gull í 5000 metra hlaupi á demantamótaröðinni í Svíþjóð fyrir tveimur árum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×