Innlent

Aðsókn að gosstöðvunum aldrei verið minni

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Vaskir göngumenn ganga niður Langahrygg við gösstöðvarnar.
Vaskir göngumenn ganga niður Langahrygg við gösstöðvarnar. vísir/vilhelm

Þeim fækkar ört sem vilja gera sér ferð að gos­stöðvunum í Geldinga­dölum. Hraun hefur enda ekki sést koma upp úr gígnum í tæpar fjórar vikur, en það gerðist síðast þann 18. septem­ber. Á­höld eru uppi um hvort gosinu sé lokið eða hvort nú sé í gangi lengsta gos­hléið til þessa.

Gosið hófst þann 19. mars en fimm dögum síðar var teljara komið fyrir á svæðinu. Að­sóknin var lang­mest fyrstu dagana en mest hafa rétt rúm­lega sex þúsund manns heim­sótt svæðið á sama degi, þann 28. mars.

Næstum helmingi minni aðsókn í október

Að meðal­tali heim­sóttu 3.717 gos­stöðvarnar dag­lega frá því að gosið hófst og þar til mars­mánuður var liðinn. Þeim fór svo mjög fækkandi en þeir voru í kring um ellefu til ní­tján hundruð á dag á meðal­tali alla mánuði síðan. Þar til nú í októ­ber.

Það sem af er mánuði hafa ekki nema tæp­lega átta hundruð gert sér ferð að svæðinu að meðal­tali á dag.

Í þessum mánuði var að­sóknin mest þann 1. októ­ber þegar 1.183 fóru í Geldinga­dali. Þessi há­punktur að­sóknar er jafn­framt lang­minnstur allra mánaða síðan gosið hófst. Alla hina að­sóknar­mestu daga fyrri mánaða fóru fleiri en þrjú þúsund á svæðið.

Mánuðurinn er auð­vitað að­eins hálfnaður og aldrei að vita nema að­sóknar­tölurnar snar­hækki ef gosið fer aftur í gang.

Hér má sjá tölur yfir fjölda þeirra sem heimsótti gosstöðvarnar að meðaltali á dag í hverjum mánuði og þann dag í mánuðinum sem aðsóknin var mest:

Mars:           3.717 á dag - mest 28. mars: 6.032 manns

Apríl:            1.301 á dag – mest 2. apríl: 5.908 manns

Maí:              1.565 á dag - mest 16. maí: 3.524 manns

Júní:              1.170 á dag - mest 10. júní: 3.594 manns

Júlí:                1.901 á dag – mest 17. júlí: 3.177 manns

Ágúst:           1.707 á dag – mest 8. ágúst: 3.159 manns

September:  1.590 á dag – mest 17. september: 4.142 manns

Október:        793 á dag – mest 1. október: 1.183 manns




Fleiri fréttir

Sjá meira


×