Innlent

Af­létta rýmingu og af­­lýsa hættu­­stigi á Seyðis­firði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. Daníel Örn Gíslason

Rýmingu sem var í gildi á nokkrum húsum á Seyðisfirði vegna hreyfinga í hlíðum ofan bæjarins hefur verið aflétt að fullu. Þá hefur hættustigi almannavarna verið aflýst.

Í tilkynningu frá almannavörnum kemur fram að hægst hafi á hreyfingu sem mælst hefur á hryggnum milli skriðusársins sem myndaðist þegar skriða féll á Seyðisfjörð í desember í fyrra og Búðarár.

„Mælingar og athuganir á vettvangi sýna að sprungur hafa opnast undanfarna daga og hryggurinn gliðnað. Þannig hafa líkur aukist á að hann brotni upp. Falli hann fram mun hann að líkindum fara í nokkrum stykkjum. Við því mætti búast í rigningartíð einhvern tíma á næstunni,“ segir í tilkynningunni.

Þá sýni útreikningar sem kynntir voru í gær að allar líkur séu á að varnargarðar og safnþró leiði skriðuna til sjávar, án þess að valda tjóni á mannvirkjum, jafnvel þó hún fari af stað öll í einu.

„Í ljósi þess hefur lögreglustjórinn á Austurlandi ákveðið að aflétta rýmingu á þeim fimm húsum sem enn voru rýmd eftir gærdaginn. Íbúum í þeim húsum hefur þegar verið kynnt þessi niðurstaða.“

Þá hefur hættistig almannavarna sem verið hefur í gildi færst niður á óvissustig.

„Áfram verði aðgæsla vegna umferðar á göngustígum meðfram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum.

Fjöldahjálparstöð sem opin hefur verið í Herðubreið hefur nú verið lokað en minnt á íbúafund í Herðubreið næstkomandi fimmtudag.

Þá er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins 1717,“ segir jafnframt í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×