Viðskipti innlent

Yfir nífalt fleiri brottfarir í september

Eiður Þór Árnason skrifar
Bandaríkjamenn og Þjóðverjar voru fjölmennastir í september eða um 41%.
Bandaríkjamenn og Þjóðverjar voru fjölmennastir í september eða um 41%. Vísir/Vilhelm

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 108 þúsund í septembermánuði. Horfa þarf nokkur ár aftur í tímann til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega í september en um að ræða 969% aukningu milli ára.

Þetta kemur fram í farþegatölum Ferðamálastofu og Isavia. Brottfarir erlendra farþega eru það sem af er ári 4% færri en í fyrra en þegar horft er til brottfara síðasta hálfa árið hefur fjöldinn meira en þrefaldast milli ára. Brottfarir mældust um 433 þúsund talsins á tímabilinu apríl til september 2021 en um 127 þúsund árið 2020.

Það sem af er ári eru brottfarirnar hins vegar 72% færri en árið 2019. Langflestar brottfarir í september má rekja til Bandaríkjamanna eða 27,8%. Þjóðverjar voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru um 13.900 talsins eða 12,9% af heild. Í þriðja sæti voru brottfarir Breta, um 6,1% af heild og Frakka, um 6% af heild.

Brottfarir Íslendinga í september voru um 29 þúsund talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær um fimm þúsund. Brottfarir Íslendinga frá áramótum eru um 113 þúsund eða 6,6% færri en á sama tímabili í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×