Innlent

Festust í snjó og síma­sam­bands­leysi en eru nú fundin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá vettvangi nú í kvöld.
Frá vettvangi nú í kvöld. Landsbjörg

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út rétt fyrir klukkan hálf átta í kvöld eftir að Neyðarlínu barst tilkynning um fastan bíl á Mælifellssandi rétt norður af Mýrdalsjökli. Þrír voru í bílnum sem verið er að draga upp úr snjó sem hann festist í.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg. Þar segir að bíllinn hafi verið á vesturleið um hálendið þegar hann festist. Lélegt símasamband er á svæðinu og þurfti fólkið því að ganga nokkurn spöl til að eiga þess kost að hringja á hjálp.

Sambandið var þó slitrótt en einn tilkynnandi náði að koma því til skila að fólkið væri ekki við bílinn og gaf upp áætlaða staðsetningu, sem björgunarsveitir vissu þó ekki hvort ætti við bílinn eða fólkið.

Því var brugðið á það ráð að kalla út nokkrar björgunarsveitir og senda þær á Mælifellssand úr tveimur áttum, þar sem mögulegt var talið að fólkið væri ekki við bílinn og leita þyrfti að því.

Upp úr klukkan níu í kvöld komu björgunarsveitir að bílnum, þar sem alla þrjá ferðalangana var að finna innanborðs. Þá tók við vinna viða að draga bílinn úr snjónum og fylgja fólkinu í austurátt til byggða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×