Neytendur

Innkalla kjúkling vegna gruns um salmonellusmit

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kjúklingur sem um ræðir er seldur undir vörumerkjum Ali, Bónus og FK.
Kjúklingur sem um ræðir er seldur undir vörumerkjum Ali, Bónus og FK. Getty

Matvælastofnun varar við neyslu á einni framleiðslulotu af kjúklingi frá Matfugli en umbúðirnar kunna að vera merktar Ali, Bónus eða FK. Ástæðan er grunur um salmonellusmit. Matfugl hefur innkallað vöruna.

Frá þessu er greint á vef MAST.

Um er að ræða heilan kjúkling, bringur, lundir, bita og marineraðar kjúklingabringur sem ýmist eru merktar Ali, Bónus eða FK en lotunúmerið er 011-21-34-5-29.

Vörunum var pakkað dagana 29.09.2021 til 01.10.2021.

Þær voru til sölu í verslunum Bónus og Krónunnar, í Fjarðarkaupum og í Kassanum.

„Neytendur sem keypt hafa kjúkling með þessu rekjanleikanúmeri eru beðnir um að skila honum í viðkomandi verslun eða beint til Matfugls ehf., Völuteigi 2, Mosfellsbæ,“ segir á vef MAST.

Í tilkynningu frá Matfugli segir: „Til að varast óróleika hjá neytendum skal það tekið fram að þessi kjúklingur er hættulaus fari neytendur eftir áprentuðum leiðbeiningum um eldun kjúklinga, sem finna má á umbúðum. Steiki kjúklinginn í gegn og passi að blóðvökvi fari ekki í aðra matvöru.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×