Erlent

Vann 699 milljónir dala í Power­ball-lottóinu

Atli Ísleifsson skrifar
Vinningsmiðinn var seldur í Morro Bay í Kaliforníu.
Vinningsmiðinn var seldur í Morro Bay í Kaliforníu. EPA

Stóri potturinn í bandaríska Powerball-lottóinu gekk loksins út í nótt. Þetta var í fyrsta sinn síðan 5. júní síðastliðinn þar sem potturinn gekk út og var hann kominn upp í heilar 699,8 milljónir dala, um 90 milljarða króna.

USA Today segir að um sé að ræða sjöunda stærsta lottóvinning í sögu landsins. Alls var búið að draga í lottóinu í fjörutíu skipti í röð án þess að nokkur miðahafi hafi verið með allar sex rölurnar réttar.

Vinningsmiðinn var seldur í Morro Bay í Kaliforníu, en vinningstölurnar að þessu sinni voru 12, 22, 54, 66, 69, og ofurtalan 25.

Powerball-lottóið er hannað á þann veg að tiltölulega algengt sé að potturinn gildni hressilega, en líkurnar á að vera með alla sex rétta eru einn á móti 292,2 milljónum.

Vinningsupphæðin er skattskyld og getur vinningshafinn valið milli þess fá 496 milljóna dala eingreiðslu eða þá að fá vinning greiddan jafnt og þétt yfir allt að 29 ár.

Powerball-lottóið fer fram í samtals 45 ríkjum Bandaríkjanna, auk höfuðborgarinnar Washington DC, Bandarísku jómfrúareyjum og Púertó Ríkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×