Innlent

Rýmingar á Seyðisfirði vegna skriðuhættu

Kjartan Kjartansson skrifar
Aurskriður féllu á Seyðisfirði í desember.
Aurskriður féllu á Seyðisfirði í desember. Vísir/Egill

Hættustigi almannavarna hefur verið lýst yfir á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum og verða níu hús rýmd. Þá hefur umferð um göngustíg meðfram Búðará verið bönnuð á meðan hættustigið er í gildi.

Í tilkynningu frá almannavörnum kemur fram að mælst hafi hreyfingar á fleka sem liggur milli skriðusársins frá því í aurskriðunum í desEember og Búðarár. Auk þess sé spáð úrkomu á svæðinu þegar nær dregur helgi. Ekki hafa mælst hreyfingar utan þess svæðis.

Vegna þess verða húsin við Fossgötu 4, 5 og 7 og við Hafnargötu 10,12, 14, 16b, 18c og 25 rýmd. Þá er umferð um göngustíg meðfram Búðará bönnuð á meðan hættustig er í gildi.

Gert er ráð fyrir að rýming vari fram yfir helgi í ljósi úrkomu sem spáð er á svæðinu. Þá verður staðan metin að nýju. Verið er að opna fjöldahjálparstöð í Herðubreið þangað sem allir eru velkomnir. Hún mun vera opin fram eftir kvöldi. Einnig er velkomið hafa samband við 1717 hjálparsíma Rauða krossins eða netspjallið, að því er segir í tilkynningu almannavarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×