Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - FH 26-25 | Eyjamenn höfðu betur gegn Hafnfirðingum í hörkuleik

Einar Kárason skrifar
Dagur skoraði síðustu tvö mörk ÍBV.
Dagur skoraði síðustu tvö mörk ÍBV. vísir/vilhelm

ÍBV vann í dag nauman sigur á FH í Olís-deild karla í handbolta. Eyjamenn reyndust sterkari aðilinn á lokakaflanum og lönduðu að lokum eins marks sigri, 26-25.

Leikurinn var hnífjafn frá fyrstu mínútu og ljóst að framundan væru stórskemmtilegar sextíu mínútur. Eftir fyrsta stundarfjórðunginn var staðan 6-6 og héldu liðin áfram að skiptast á að skora og komast yfir það sem eftir lifði af fyrri hálfleik. Þegar bjallan glumdi eftir fyrstu 30 mínúturnar voru heimamenn yfir með einu marki, 13-12.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik en þegar rétt rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum áttu gestirnir úr Hafnarfirði möguleika á að komast  þremur mörkum yfir. Það tókst hinsvegar ekki og gengu Eyjamenn á lagið og náðu góðum 5-1 kafla og snéru leiknum sér í hag þegar lítið var eftir.

ÍBV var þremur mörkum yfir þegar innan við tvær mínútur voru eftir af leiknum en Hafnfirðingar voru ekkert á því að gefast upp og skoruðu næstu tvö mörk. Munurinn því ekki nema eitt mark en það var það næsta sem gestirnir komust og því lauk leiknum með eins marks sigri ÍBV í skemmtilegum leik.

Af hverju vann ÍBV?

Eyjamönnum gekk afar illa að koma boltanum í netið á tímabili í leiknum og hefðu gestirnir getað komið sér í afar góða stöðu í síðari hálfleiknum en það mistókst og sáu heimamenn leik á borði. Lengi vel var erfitt að sjá hverjir myndu taka stigin tvö en á endanum voru það ÍBV sem náðu að klára leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Gabríel Martinez Róbertsson, Kári Kristján Kristjánsson og Rúnar Kárason skoruðu fimm mörk hver fyrir ÍBV en í liði gestanna var Phil Döhler, markvörður FH, manna öflugastur og gerði Eyjamönnum erfitt fyrir en hann varði 15 skot. Birgir Már Birgisson var markahæstur Hafnfirðinga með sex mörk.

Hvað gekk illa?

Markverðir ÍBV hafa átt betri daga og tóku samanlagt átta skot. Sóknarleikurinn virtist tilviljanakenndur á tímabili áður en Eyjamenn náðu að stilla sig af. 

Hjá FH var það einna helst tapaðir boltar og mistök í sóknarleik sem varð þeim að falli.

Hvað gerist næst?

ÍBV taka á móti KA á sunnudaginn eftir viku en Hafnfirðingar fara í Kórinn og mæta þar HK.

Sigursteinn: Gerum okkur seka um vond mistök

Sigursteinn Arndal.vísir

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var hreinskilinn eftir leik og sagði að tilfinningin væri ömurleg.

„Eins marks tap eftir að við erum með leikinn þannig lagað í höndum okkar til að loka, en við gefum eftir. Þetta er saga þessara liða. Þetta eru alltaf jafnir leikir og eru fram og til baka en ég er ósáttur við það að vera kominn í stöðu til að loka leiknum og gefa það frá okkur.“

„Við spiluðum fína vörn á löngum köflum en við gerum okkur seka um vond einstaklingsmistök í seinni hálfleik og það er bara of mikið.“

„Við getum ekki leyft okkur annað en að einbeita okkur að næstu æfingu og næsta leik sem er gegn HK.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira