Íslenski boltinn

Hermann hættur hjá Þrótti: „Verðum honum ævinlega þakklát“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hermann Hreiðarsson náði mjög góðum árangri með Þrótt V.
Hermann Hreiðarsson náði mjög góðum árangri með Þrótt V. þróttur v

Hermann Hreiðarsson er hættur sem þjálfari Þróttar Vogum eftir eins og hálfs árs starf þar.

Hermann hefur verið sterklega orðaður við uppeldisfélagið ÍBV sem er í þjálfaraleit eftir að Helgi Sigurðsson lét af störfum eftir að hafa komið Eyjamönnum upp í Pepsi Max-deildina.

Hermann var ráðinn þjálfari Þróttar í júlí 2020. Þróttarar voru í 2. sæti 2. deildar þegar tímabilið var blásið af vegna kórónuveirufaraldursins og misstu naumlega af sæti í Lengjudeildinni.

Þróttarar náðu því hins vegar í sumar og gott betur en þeir unnu 2. deildina. Þróttur leikur því í næstefstu deild í fyrsta sinn næsta sumar.

Í færslu á Facebook-síðu Þróttar er farið fögrum orðum um Hermann. „Það hefur aldrei verið leyndarmál að Þróttur Vogum er í þessu til að eignast vini og við höfum eignast vin til æviloka. Við verðum Hermanni ævinlega þakklát fyrir hans framlag til samfélagsins í Vogum. Hann lyfti félaginu á hærri stall og hefur komið Þrótti í hóp bestu liða landsins.“

Hermann hóf þjálfaraferilinn hjá ÍBV 2013 en hann hefur einnig stýrt karla- og kvennaliðum Fylkis og var aðstoðarþjálfari hjá Kerala Blasters á Indlandi og Southend United á Englandi. Þá er Hermann aðstoðarmaður Davíðs Snorra Jónassonar með U-21 árs landslið karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×