Erlent

Sakar Bandaríkin um leikaraskap en vill opna aftur á samskiptin við Suður-Kóreu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kim Jong-un segir Norður- og Suður-Kóreu standa á krossgötum.
Kim Jong-un segir Norður- og Suður-Kóreu standa á krossgötum. AP/Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, segir tilboð Bandaríkjamanna um viðræður og sættir leikrit en hann hafi fyrirskipað embættismönnum að opna aftur fyrir samskiptalínur við Suður-Kóreu til að „stuðla að friði“.

Leiðtoginn ávarpaði löggjafarsamkomu landsins í gær og sakaði Bandaríkin meðal annars um að reka fjandsamlega stefnu í garð Norður-Kóreu, þrátt fyrir tilboð Joe Biden Bandaríkjaforseta um að hefja viðræður án nokkurra fyrirvara.

Engar viðræður hafa átt sér stað milli ríkjanna frá því að Kim og Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, hittust í Hanoi árið 2019. 

Frá því að Biden tók við hafa stjórnvöld vestanhafs ítrekað rétt Norður-Kóreu fram sáttarhönd og sagst vera tilbúin til að hitta leiðtoga landsins hvar sem er og hvenær sem er. Á sama tíma hefur þó legið fyrir að viðræður myndu alltaf miða að því að tryggja að Norður-Kórea hefði ekki aðgang að kjarnavopnum.

Kim sagði í gær að téðar yfirlýsingar væru ekkert annað en leikaraskapur og að Bandaríkin hefðu alltaf haft rekið fjandsamlega stefnu gegn landinu. Hann sagði stjórnvöld í Suður-Kóreu ennþá fylgja Bandaríkjunum að málum en sagðist engu að síður reiðubúin til að opna aftur fyrir síma og fax samskipti milli ríkjanna í byrjun október.

Sagði hann samskipti Norður- og Suður-Kóreu á krossgötum og að ríkin stæðu frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum um sættir eða áframhaldandi árekstra.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×