Neytendur

Stytta opnunar­tíma Lands­bankans en auka ráð­gjafar­tíma

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hefur ákveðið að stytta afgreiðslutíma útibúa um klukkustund og verða þau framvegis opin frá 10-16. Um leið lengist sá tími sem fjármálaráðgjöf er í boði símleiðis eða á fjarfundum til klukkan 18 alla daga.

Frá breytingunum er greint á vef Landsbankans. Þar segir að í langflestum tilfellum noti fólk appið eða netbankann til að sinna fjármálunum en mikilvægi þess að hafa aðgang að vandaðri fjármálaráðgjöf, svo sem um íbúðalán, sparnað eða annað, sé óbreytt og hafi jafnvel aukist.

„Með því að lengja þann tíma sem við veitum ráðgjöf til kl. 18 gerum við þjónustu okkar sveigjanlegri en í mörgum tilfellum hentar það fólki betur að sækja sér ráðgjöf utan hefðbundins afgreiðslutíma,“ segir á vef bankans.

Útibú Landsbankans í Borgartúni.Vísir/Vilhelm

Á höfuðborgarsvæðinu verður áfram hægt að fá reiðufjárþjónustu hjá gjaldkerum í Borgartúni 33 og Austurstræti 11. Í öðrum útibúum á höfuðborgarsvæðinu er hægt að taka út og leggja inn reiðufé í hraðbönkum. Gjaldeyrishraðbankar eru aðgengilegir í öllum útibúunum en aðeins verður hægt að skipta erlendum peningaseðlum í íslenskar krónur í Borgartúni og Austurstræti.

Samhliða þessum breytingum hefur sjálfsafgreiðslutækjum í útibúum á höfuðborgarsvæðum verið fjölgað og þau eru aðgengileg allan sólarhringinn.

„Starfsfólk útibúa er sem fyrr boðið og búið til að aðstoða viðskiptavini við að nýta sér sjálfsafgreiðslutæki, hraðbanka, netbankann og appið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×