Fótbolti

Virðingarleysi við Leo Messi að láta hann liggja þarna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar athugar hvernig Lionel Messi hefur það rétt fyrir eina aukaspyrnu Manchester City í Meistaradeildarleik PSG og City á Parc des Princes í gærkvöldi.
Neymar athugar hvernig Lionel Messi hefur það rétt fyrir eina aukaspyrnu Manchester City í Meistaradeildarleik PSG og City á Parc des Princes í gærkvöldi. EPA-EFE/YOAN VALAT

Ein nýjasta tískan í fótboltanum er að láta menn liggja fyrir aftan varnarvegginn í aukaspyrnum mótherjanna. Það áttu þó fáir að sjá einn besta fótboltamann sögunnar í því hlutverki.

Gærkvöldið var vissulega fyrsta gleðikvöld Lionel Messi í París þegar hann opnaði markareikning sinn með franska félaginu Paris Saint Germain.

Markið vakti vissulega mikla athygli enda glæsilegt og langþráð fyrsta mark hans fyrir franska félagið.

Það vakti þó ekki síður umræðu á netinu þegar Messi var settur í það hlutverk að liggja fyrir aftan varnarvegginn í einni aukaspyrnu Manchester City manna.

Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, er nú sérfræðingur á BT Sport og hann var allt annað en hrifinn.

„Á því augnabliki þegar Mauricio Pochettino (stjóri PSG) lagði að til á æfingu að Messi myndi liggja fyrir aftan varnarvegginn í aukaspyrnum þá átti einhver liðsfélagi hans að stíga fram og segja: Nei, nei, nei, nei, nei,“ sagði Rio Ferdinand.

„Nei, nei, nei, nei. Þetta má ekki. Þetta er algjört virðingarleysi og ég gæti aldrei leyft þetta,“ sagði Ferdinand.

„Ef ég hefði verið í liðinu hefði ég sagt við Messi: Ég skal leggjast niður í stað fyrir þig,“ sagði Ferdinand.

Owen Hargreaves, annar sérfræðingur á BT Sport, var á sama máli.

„Við trúðum þessu ekki. Hann er einn af þeim bestu í sögunni ef ekki sá besti,“ sagði Hargreaves.

Knattspyrnuáhugafólk á netinu spurði sig og aðra að því hvernig þetta gat gerst og líka hver hafi vogað sér að biðja Messi um að gera þetta.

Seinna í leiknum var þó komið að Kylian Mbappé að fara í það hlutverk að leggjast fyrir aftan varnarvegginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×