Innlent

Tekinn með á annað hundruð Oxycontin-töflur

Atli Ísleifsson skrifar
Tollgæslan fann töflurnar við hefðbundið eftirlit, en lögreglan haldlagði töflurnar og er málið nú í rannsókn.
Tollgæslan fann töflurnar við hefðbundið eftirlit, en lögreglan haldlagði töflurnar og er málið nú í rannsókn. Vísir/Vilhelm

Karlmaður var stöðvaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komuna til landsins í gærkvöld þar sem í farangri hans fundust á annað hundrað Oxycontin-töflur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar segir að Tollgæslan hafi fundið töflurnar við hefðbundið eftirlit, en lögreglan haldlagði töflurnar og er málið í rannsókn.

Einnig segir frá því að annar karlmaður hafi verið stöðvaður við komuna til landsins um helgina. Hann hafi reynst vera með meint fíkniefni í buxnaskálm sinni.

Um önnur mál sem hafi komið inn á borð lögreglu segir að erlendur ferðamaður hafi ekið út af Reykjanesbraut um helgina.

„Bifreiðin fór yfir urð og grjót og skemmdist mikið. Hún var fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið. Ökumaðurinn kvaðst hafa verið þreyttur og taldi að hann hefði sofnað undir stýri.

Þá voru höfð afskipti af öðrum ökumanni sem ók Reykjanesbraut á 123 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. Þegar betur var að gáð reyndist hann vera með ungt barn í aftursæti bifreiðarinnar sem ekki var í tilskildum öryggisbúnaði. Hann var látinn bíða þar til leigubifreið kom með barnabílstjól.

Nokkrir ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur og fáeinir til viðbótar fyrir vímuefnaakstur. Tveir þeirra síðarnefndu óku sviptir ökuréttindum,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×