Erlent

Fær­eysk fisk­eldis­fyrir­tæki for­dæma leiftur­sdrápin

Þorgils Jónsson skrifar
Drápið á 1.428 leiftrum, hvölum af höfrungaætt, í Skálafirði í Færeyjum um síðustu helgi hefur vakið mikil viðbrögð víða um heim. Samtök fiskeldisfyrirtækja þar í landi fordæma drápið og landsstjórnin boða endurskoðun á reglum um höfrungadráp.
Drápið á 1.428 leiftrum, hvölum af höfrungaætt, í Skálafirði í Færeyjum um síðustu helgi hefur vakið mikil viðbrögð víða um heim. Samtök fiskeldisfyrirtækja þar í landi fordæma drápið og landsstjórnin boða endurskoðun á reglum um höfrungadráp. Sea Sheperd

Havbúnaðarfelagið, samtök stærstu fiskeldisfyrirtækja Færeyja fordæmdi stórfellt dráp á leiftrum, hvölum af ætt höfrunga, sem átti sér stað í Skálafirði um síðustu helgi. Þar voru 1.428 dýr drepin. Atburðurinn hefur vakið mikla reiði utanlands sem innan, en landsstjórnin í Færeyjum hyggst taka reglur um höfrungaveiðar til gagngerrar endurskoðunar.

Samtökin undirstrika að fyrirtækin hafi hvergi komið nærri drápinu, og engir bátar eða aðstaða frá þeim hafi verið nýtt til drápanna eða eftir þau.

Í samtali við danska ríkisútvarpið, DR, segir Regin Jacobsen, forstjóri laxeldisfyrirtækisins Bakkafrost, að fyrirtækið hafi fengið fjölmargar fyrirspurnir um málið frá viðskiptavinum erlendis. Málið geti stórskaðað útflutningsfyrirtæki og því fagnar hann því að stjórnvöld ætli að taka málið föstum tökum. Að hans mati kæmi vel til greina að banna allt höfrungadráp.

„Það er jákvætt að stjórnvöld gáfu þessa yfirlýsingu, því auðvitað er þetta viðkvæmt pólitískt mál. Grindhvaladráp er samofið færeyskri menningu í gegnum aldirnar, en það er alls engin hefð fyrir höfrungadrápi.“

Í tilkynningu sem birt er á ensku á vef færeysku landstjórnarinnar segir Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, að málið væri litið alvarlegum augum.

„Þó veiðarnar séu taldar sjálfbærar munum við grandskoða leiftursdrápin og meta stöðu þeirra í færeysku samfélagi,“ segir hann og bætir við að landstjórnin mun hefja endurmat á reglum um leiftursveiðar.

Leifturstorfan sem gekk inn í Skálafjörð var að sögn lögmannsins sú langstærsta sem sést hefur.

Færeyingar veiða árlega um 600 grindhvali og 250 leiftur. Síðarnefnda tegundin hefur verið nokkurs konar aukaafurð með grindhvaladrápi, en þó stöku sinnum veidd ein og sér.


Tengdar fréttir

Stórfellt höfrungadráp í Færeyjum vekur reiði

Dýraverndunarsinnar beina nú spjótum sínum að Færeyingum sem veiddu hundruð höfrunga um helgina. Rúmlega fjórtán hundruð höfrungum var smalað með bátum upp í fjörur Skálafjarðar á sunnudag þar sem heimamenn slátruðu þeim og skáru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×