Viðskipti innlent

Vonar að ráðherra sjái ljósið

Eiður Þór Árnason skrifar
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss.
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss. Samsett

Sellerí er nú víða ófáanlegt í matvöruverslunum og beina innflutningsaðilar sökinni að innflutningstollum sem voru lagðir á sellerí um þarsíðustu mánaðamót. Á sama tíma hefur innlend uppskera gengið illa og íslenskt sellerí skilað sér stopult til verslana.

„Eingöngu einn framleiðandi ræktar sellerí á Íslandi og hefur hann aðeins getað mætt broti af eftirspurn verslunarinnar eftir vörunni undanfarnar vikur,“ segir á vef Félags atvinnurekenda sem gagnrýnir breytingar stjórnvalda á tollaumhverfi búvara.

Árið 2019 felldi Alþingi niður ákvæði sem heimiluðu ráðherra að gefa út svokallaðan skortkvóta og lækka tolla á vörum tímabundið ef innlenda framleiðslu vantaði.

Nóg til af selleríi erlendis

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss kannast við þessa stöðu og segir um heimatilbúinn vanda að ræða.

„Það er alveg nóg til af selleríi erlendis en landbúnaðarráðherra var búinn að setja á ofurtolla þannig að það er ógjörningur að flytja það inn,“ segir hann í samtali við Vísi.

Kílóverðið á sellerí kosti yfirleitt á bilinu 300 til 400 krónur en með nýju tollunum sé það komið upp í vel á annað þúsund krónur.

Sellerískortur hrjáir landann.Aðsend

Guðmundur segir að innflutningur á selleríi hafi stöðvast eftir að tollarnir tóku gildi þann 1. ágúst. Verndartollunum sé ætlað að verja pínulitla íslenska framleiðslu sem sé engan vegin undir það búin að mæta þörfinni hér á landi.

„Þetta er ekki neytendum til heilla. Það er alveg galið að vera að flytja inn sellerí á þessum ofurtollum. Maður er að vona að ráðherra sjái ljósið og afnemi tollana á meðan íslenska framleiðslan annar ekki eftirspurn, þannig að kúnninn hafi þá val um ódýrara innflutt sellerí eða dýrara íslenskt, þetta snýst um að neytendanna hafi val.“

Kalla eftir endurskoðun

Með breytingunum á tollalögum voru ákvæði um skortkvóta felld burt en í staðinn voru skilgreind fastákveðin tímabil sem flytja má inn ákveðnar vörur á lægri en engum tolli

Í tilkynningu frá FA segir að félagið hafi varað við því á sínum tíma að tímabilin væru of stutt og breytingarnar myndu leiða til þess að vörur yrðu ýmist ófáanlegar eða innflutningur mun dýrari þótt engin innlend vara væri til.

„Það hefur síðan komið á daginn varðandi t.d. kartöflur og gulrætur og nú sellerí. Á innflutt sellerí leggst nú 30% verðtollur auk 276 króna magntolls á kíló. Innflytjendur hafa ekki treyst sér að flytja sellerí inn á slíkum tollum, enda myndi það tvöfalda verðið og gott betur miðað við það sem neytendur eru vanir.“

Kallar FA eftir endurskoðun á umræddum tímabilum.

„Í þessu tilviki þarf innlenda framleiðslan ekki einu sinni á tollverndinni að halda, af því að hún er rifin út um leið og eitthvað er til. Neytendur velja fremur innlenda grænmetið en innflutt. Það er algjörlega fráleitt að ef það innlenda er ekki til sé versluninni og neytendum refsað með þessum gríðarlegu tollum á innflutta vöru,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×