Erlent

Páfi hafnar fréttum um að hann ætli að segja af sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Frans páfi er 84 ára gamall. Ítalskt dagblað hélt því fram að hann gæti sagt af sér í kringum 85 ára afmælið í desember.
Frans páfi er 84 ára gamall. Ítalskt dagblað hélt því fram að hann gæti sagt af sér í kringum 85 ára afmælið í desember. Vísir/EPA

Frans páfi segir ekkert hæft í fréttum ítalskra fjölmiðla um að ætli að segja af sér á næstunni. Hann lifi nú fullkomulega eðlilegu lífi eftir ristilaðgerð sem hann gekkst undir í júlí.

Ítalska dagblaðið Libero hélt því fram að páfakjör væri á næsta leiti því Frans páfi hefðu rétt um að segja af sér, mögulega í kringum 85 ára afmæli sitt í desember. Páfi hafnaði því alfarið í viðtali við spænsku útvarpsstöðina COPE. Fullyrti hann að það hefði ekki svo mikið sem hvarflað að honum að segja af sér.

Þá segist hann annar maður eftir ristiluppskurðinn í júlí. Hann lá á sjúkrahúsi í ellefu daga eftir aðgerðina en hann hafði þjáðst af þrengslum í ristli. Nú segist hann geta borðað allt sem hann gat ekki gert áður.

Þakkaði hann karkyns hjúkrunarfræðingi í Páfagarði fyrir að sannfæra sig um að fara í aðgerð frekar en að halda áfram meðferð með sýklalyfjum og öðrum lyfjum.

„Hann bjargaði lífi mínu,“ sagði Páfi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Til að sýna fram á að hann ætli sér alls ekki að láta af embætti lýsti Frans ferðadagskrá næstu mánaða. Hann stefnir meðal annars á að mæta á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×