Skoðun

Djöfull í manns­líki eða geð­sjúk­lingur; nema hvort tveggja sé

Ole Anton Bieltvedt skrifar

Nú um síðustu helgi birti Fréttablaðið frétt af íslenzkum karlmanni á fertugsaldri, sem býr í Mosfellsbæ, en hann sendi út myndband á Instagram 21. ágúst, þar sem hann pyntar lítinn skógarþröst til dauða með fjölmörgum hnífsstungum.

Hér er lýsing blaðamanns á efni myndbandsins:

„Í byrjun myndbandsins má sjá skógarþröst hoppa um á stofugólfi. Tveir kettir fylgjast áhugasamir með honum en þeir hafa að líkindum komið með hann inn á heimili mannsins. Fuglinn virðist vængbrotinn. Annar kötturinn slær til fuglsins með loppunni (klónum) og hoppar þá fuglinn yfir herbergið. – Maðurinn snýr þá myndavélinni að sér, sýnir stóran hníf og segir: „Geggjað fallegur fugl sem við fengum í matinn“. Myndavélinni er þá snúið aftur að köttunum sem halda áfram að hringsóla og stríða (kvelja) fuglinn. – Maðurinn mundar hnífinn og kettirnir forða sér áður en hann slær til fuglsins. Á sekúndu 29 stingur maðurinn fuglinn, eða öllu heldur heggur til hans með hnífnum. Fuglinn virðist ekki deyja strax og má heyra hann skrækja örlítið og kippast til. – Maðurinn heggur fimm sinnum til viðbótar í hausinn og hálsinn á fuglinum og er öll atburðarásin yfirstaðin á sekúndu 44. Liggur þá fuglinn hreyfingarlaus og má sjá blóð og fjaðrir á víð og dreif um gólfið. – „Úbbs“ segir þá maðurinn í hæðnistón og sýnir blóðugan hnífinn og brosir. – Hann mundar hnífinn fyrir framan andlitið á sér og segir á ensku við myndavélina: „Namm, namm, uppáhaldið mitt. Ferskt blóð. Uppáhaldið mitt““.

Þetta var lýsing blaðamanns Fréttablaðsins á þessu myndbandi, sem blaðið mun hafa undir höndum.

Hér er greinilega djöfull í mannsmynd eða geðsjúkur maður, heltekinn kvalalosta og drápsfýsn, á ferð, nema hvorttveggja sé.

Eitt er það, að þetta illmenni kvelji og misþyrmi litinn og varnarlausan skógarþröst, pynti til dauða, sér til gleði og ánægju, og sendi svo út myndband með ódæðinu til allra, sem á vilji horfa, en annað er það, að spyrja verður, hvort og hvaða illvirki önnur þessi maður kunni að hafa drýgt, gegn öðrum saklausum og varnarlausum dýrum, eða í hvað stefnir með viðurstyggilegt eðli mannsins.

Verða börn eða mannfólk ef til vill næst? Sagan sýnir, að margir illvirkjar og morðingjar hafa byrjað sín ódæðis- og voðaverk á dýrum. Svo, hafa sumir þeirra fært sig yfir á mannfólk með óeðli sitt, kvalalosta og drápsfýsn.

Skv. lögum um velferð dýra nr. 55/2013, 15. og 21. grein, ber Matvælastofnun að kæra þennan mann og viðbjóðslegt athæfi hans til lögreglu, sem aftur ber að koma þessari kæru, að lokinni rannsókn, til saksóknara, sem ákæra verður fyrir þetta viðurstyggilega brot.

Þegar um „stórfellt brot“ er að ræða, sem undirrituðum finnst hér eiga við, er hámarksrefsing tveggja ára fangelsi, skv. 45. grein þessara laga.

Afar brýnt virðist að ná til þessa illvirkja, áður en hann nær að skaða eða granda frekari lífverum, dýrum eða mönnum, með grimmd sinni og óeðli.

Ekki er aðeins mikilvægt, að manninum sé refsað, hratt og með hámarksrefsingu, ef nokkur von á að vera til þess, að unnt verði að hemja hann og sjúklegt eðlisfar hans í framtíðinni, heldur þarf refsingin jafnframt að vera aðvörun fyrir aðra, sem haldnir eru svipuðu óeðli.

Fróðlegt verður að sjá, hvernig MAST, lögregla og saksóknari standa sig! Lög nr. 55/2013, um velferð dýra, ná til allra dýra, líka tífætlukrabba, smokkfiska og býflugna, þó ekki til villtra fiska, sem þó hefði verið nauðsynlegt, eins og nýleg dæmi sanna.

Nú er spurning, hvort einhver, sem för ræður í réttarkerfinu, eigi eftir að segja: „Þetta var bara fugl“ og gera lítið úr málinu. Ef svo færi, væri sá sami, og þá um leið réttarkerfið, að leggja blessun sína yfir ógeðslegt atferlið, og, í raun, heiðra ódæðismanninn og gefa honum og öðrum áþekkum geðsjúklingum grænt ljós á áframhaldandi glæpsamlegan verknað. Vaka verður yfir því, að það verði ekki.

Spurning er líka, hvort ekki væri við hæfi, að fjölmiðlar birti mynd af þessu ómenni, þannig, að menn geti varazt hann og haldið honum frá sér og sínum, eftir föngum. Hann hefur, hvort eð er sjálfur birt myndir af sér og sínu dýraníði á netinu.

Höfundur er stofnandi og formaður Jarðarvina, félagasamtaka um dýra-, náttúru- og umhverfisvernd.




Skoðun

Sjá meira


×