Lífið

Mikilvægt að fylgjast með mælum til að forðast bakreikning

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Simmi smiður gefur góð ráð í þáttunum Draumaheimilið í stjórn Hugrúnar Halldórsdóttur.
Simmi smiður gefur góð ráð í þáttunum Draumaheimilið í stjórn Hugrúnar Halldórsdóttur. Stöð 2

Sigmundur Grétar Hermannsson, betur þekktur sem Simmi smiður, er einn af sérfræðingum þáttanna Draumaheimilið. Í öðrum þætti fræðir hann áhorfendur um vatnsinntak og vatnslagnir.

„Það sem flest allir gera er að þeir lesa af þessum mælum einu sinni til tvisvar á ári,“ segir Simmi við Hugrúnu Halldórsdóttur þáttastjórnanda þegar þau koma inn í lagnakompuna.

„Þú þarft að fylgjast með notkun og þú getur séð á milli þessara mæla hvort það sé eitthvað afbrigðilegt. Ef þú ert í þinni íbúð og ert ekki að nota neitt vatn en mælirinn þinn er á fleygiferð, þá er eitthvað óeðlilegt í gangi.“

Getur það verið leki, ofn sem hleypir stöðugt í gegnum sig eða annað.

„Þetta veldur því að þú færð bakreikning.“

Klippa: Draumaheimilið - Simmi smiður skoðar lagnir

Lagnagerðin skiptir máli

Í þættinum skoðaði Simmi einnig lagnir og útskýrði muninn á stállögnum og svo eirlögnum, en þær má finna í mörgum eldri húsum.

„Það verður innri tæring inni í rörinu sem þú getur ekkert fylgst með. Það er bara út af efnasamsetningu vatnsins sem við erum að dæla í gegnum þessar lagnir. Kápan er mikið þynnri og þetta eru miklu viðkvæmari lagnir.“

Þegar fólk fær sér húseigandatryggingu skiptir miklu máli hvernig lagnir eru í húsinu.

„Þá eru tryggingarfélögin hætt að tryggja þig fyrir vatnstjóni ef þú ert með eirlagnir.“

Í innslaginu talar Simmi líka um það af hverju það er mikilvægt að vita hvar inntökin eru inn í húsið, ef upp kemur leki eða annað slíkt.

Klippu úr þættinum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en þættirnir eru á dagskrá Stöðvar 2 alla mánudaga. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×