Skoðun

Kvóta­kerfið og veiði­gjaldið er sitt hvor hliðin á sama peningi

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Kvótakerfið og veiðigjaldið er sitt hvor hliðin á sama peningi. Kvótakerfið er heimild útgerða til að veiða ákveðinn hluta leyfilegs afla og veiðigjaldið er árgjaldið sem greitt er, enda eðlilegt að greitt sé fyrir aðgang að takmarkaðri náttúruauðlind. Þessu er oft hrært saman. Kvótakerfið hefur sannað gildi sitt, greinin er gífurlega ábatasöm og sjálfbærni fiskistofna er staðreynd. Okkur hefur ekki tekist eins vel til við að semja um sanngjarna skiptingu ábatans á milli eigenda og kvótahafa.

Markmið laga um veiðigjald eru að gjaldið skuli standa undir kostnaði ríkisins og tryggja þjóðinni sanngjarna hlutdeild í afkomu þeirra sem fá að nýta sjávarauðlind Íslendinga. Í lögunum segir:

„Veiðigjald er lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.“

Veiðigjaldið byggir því á tveimur stoðum, útlögðum kostnaði ríkisins annars vegar og sanngjarnri hlutdeild hins vegar. Það er varla í anda þessa markmiðs að reikna veiðigjaldið einvörðungu sem ákveðið hlutfall af aflaverðmæti útgerðarinnar. Kostnaður ríkisins við að halda utan um kerfið ræðst af öðrum þáttum en aflaverðmæti. Hluta veiðigjaldsins ætti því að miða út frá kostnaði ríkisins við að halda úti eftirliti, öryggi, rannsóknum og alls þess sem til fellur en ágóðahluti þjóðarinnar má vera tengdur aflaverðmæti hvers árs.

Stór meirihluti þjóðarinnar vill sanngjarnari skiptingu þess auðs sem sjávarútvegurinn skapar. Nýleg könnun sýnir að 77 prósent þjóðarinnar vilji að greitt sé markaðsgjald fyrir aflaheimildir. Það er því undarlegt að útgerðin vilji ekki leggja sitt af mörkum til að vinna að sameiginlegri sátt um sjávarútveginn. Hættan er alltaf fyrir hendi að gremja landsmanna aukist um of og upp komi sú staða að kvótakerfið verði endurskipulagt út frá heift í stað skynsemi. Þá er voðinn vís bæði fyrir útgerð og þjóð.

Hugmyndir Viðreisnar eru hófsamar og til þess fallnar að skapa langþráða sátt um þessa höfuðatvinnugrein landsins.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×