Fótbolti

Róbert Orri fór meiddur til Montreal og verkirnir hættu ekki

Sindri Sverrisson skrifar
Róbert Orri Þorkelsson í leik við Frakka á EM U21-landsliða.
Róbert Orri Þorkelsson í leik við Frakka á EM U21-landsliða. Getty/Peter Zador

Það verður bið á því að knattspyrnumaðurinn Róbert Orri Þorkelsson leiki sína fyrstu leiki fyrir kanadíska félagið Montreal í MLS-deildinni. Hann verður frá keppni næstu 2-3 mánuðina.

Róbert Orri, sem er uppalinn hjá Aftureldingu, var seldur til Montreal frá Breiðabliki í sumar. Hann hefur ekkert getað spilað fyrir liðið vegna meiðsla sem kallast íþróttakviðslit (e. sports hernia).

Róbert Orri meiddist í apríl eða skömmu eftir að hafa komið heim af Evrópumóti U21-landsliða. Hann náði að spila þrjá leiki í Pepsi Max-deildinni í sumar, áður en hann var seldur, en varð á endanum að fara í aðgerð vegna verkja.

„Við vissum að Róbert væri með þessi meiðsli þegar hann kom til félagsins í júní en það var mikilvægt fyrir okkur að kaupa hann,“ sagði Olivier Renard, íþróttastjóri Montreal. „Við vonuðumst til þess að hann myndi jafna sig en verkirnir eru enn til staðar svo við ákváðum að hann færi í aðgerð. Við óskum honum skjóts bata.“

Það er því ljóst að hinn 19 ára Róbert Orri verður ekki í U21-landsliðinu þegar það byrjar nýja undankeppni EM í september með útileik við Hvíta-Rússland og heimaleikjum við Grikkland og Portúgal.

MLS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×