Erlent

Fyrr­verandi ein­ræðis­herra Tjad er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Hissène Habré Habré stýrði Tsjad harðri hendi milli 1982 og 1990. Myndin er frá 1987.
Hissène Habré Habré stýrði Tsjad harðri hendi milli 1982 og 1990. Myndin er frá 1987. Getty

Hissène Habré, fyrrverandi einræðisherra Afríkuríkisins Tjads, er látinn, 79 ára að aldri. Habré varði síðustu árum sínum í fangelsi í Senegal eftir að hafa hlotið lífstíðardóm meðal annars fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

Hissène Habré lést af völdum Covid-19 í gær en hann hafði áður verið lagður inn á sjúkrahús í senegölsku höfuðborginni Dakar vegna einkenna.

Habré stýrði Tjad harðri hendi milli 1982 og 1990 og bældi í stjórnartíð sinni niður alla stjórnarandstöðu.

Stríðsglæpadómstóll á vegum Afríkusambandsins dæmdi Habré í lífstíðarfangelsi fyrir stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni, nauðgun, þrælahald og mannrán. Er áætlað að 40 þúsund manns hafi látið lífið af völdum ógnarstjórnar Habré. Þá hafi um 200 þúsund manns þurft að sæta pyndingum.

Habré var bolað frá völdum árið 1990 og flúði þá til Selegals þar sem hann lifði sem frjáls maður allt til ársins 2005. Hann var þá settur í stofufangelsi og svo settur í fangelsi árið 2013.

Habré komst til valda í miðju stríði Tjadmanna og Líbíumanna, en að sögn mannréttindasamtakanna Human Rights Watch tók Habré í stjórnartíð sinni á móti milljónum dala í stuðningi frá bandarískum stjórnvöldum í þeirri baráttu. Sömuleiðis sáu frönsk stjórnvöld Habré og hersveitum hans fyrir miklu magni vopna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×