Íslenski boltinn

Jóhann Árni skoraði fimm gegn botnliðinu - ÍA af fallsvæðinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fjölnismenn unnu góðan sigur í kvöld.
Fjölnismenn unnu góðan sigur í kvöld.

Fjölnir vann öruggan 7-0 sigur á botnliði Víkings frá Ólafsvík í Lengjudeild karla í fótbolta í kvöld. ÍA vann þá mikilvægan sigur í botnbaráttunni í Lengjudeild kvenna.

Jóhann Árni Gunnarsson skoraði tvö mörk með tveggja mínútna millibili þegar rúmur hálftími var liðinn af fyrri hálfleik er Fjölnir leiddi 2-0 í hléi. Hann fullkomnaði þrennu sína á 64. mínútu áður en Andri Freyr Jónasson skoraði annað mark tveimur mínútum síðar. Hans Viktor Guðmundsson skoraði svo fimmta mark Fjölnis stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Jóhann Árni var ekki hættur þar sem hann skoraði tvö mörk til viðbótar, á 83. og 85. mínútu, og skoraði því fimm mörk í 7-0 sigri Fjölnis.

Fjölnir fer upp fyrir Kórdrengi í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum en þeir síðarnefndu eiga leik inni. Von Fjölnismanna um að komast upp um deild er heldur veik en liðið er með 29 stig, sex á eftir ÍBV sem á leik inni.

Víkingur er með fimm stig á botni deildarinnar, tíu stigum frá öruggu sæti.

Jöfn fallbarátta kvennamegin

Í Lengjudeild kvenna voru tveir leikir á dagskrá í kvöld. Haukakonur fóru upp í fimmta sæti deildarinnar með 2-1 útisigri á Gróttu á Seltjarnarnesi. Haukar eru með 18 stig og fór upp fyrir Grindavík sem var jafnt Haukum að stigum.

Grindavík þurfti að þola 3-2 tap fyrir ÍA á Akranesi og fóru Skagakonur þannig upp úr fallsæti og upp fyrir Gróttu. ÍA var með ellefu stig í níunda sæti er nú með 14 stig í því sjöunda. Grótta er þar fyrir neðan með 13 stig og HK er með tólf stig í efra fallsætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×